Samtök iðnaðarins hafa ritað bönkunum bréf þar sem fram kemur að fjölmörg fyrirtæki séu rekin af bönkum ýmist beint eða óbeint. „Það vekur upp margar spurningar um hvernig það er gert, ekki síst hvort það leiði til óeðlilegrar og óheilbrigðar samkeppni við önnur fyrirtæki."
„Stjórn Samtaka iðnaðarins óskar eftir upplýsingum varðandi fjárhagslega- og viðskiptalega meðhöndlun fyrirtæka á samkeppnismarkaði sem eru að hluta til eða öllu leyti í eigu bankans.Er þar m.a. átt við hvort þessi fyrirtæki sitji við sama borð þegar kemur að mati við peningalega fyrirgreiðslu og hvort bankinn beiti sér fyrir að beina viðskiptum 3ja aðila til þeirra.
Ef til eru skriflegar vinnureglur um samskipti bankans og nefndra fyrirtækja er óskað eftir afriti af þeim.
Fyrirspurn þessi er send í kjölfar sögusagna um að bankarnir veiti eigin fyrirtækjum ríflega fjárhagslega fyrirgreiðslu og skilyrði jafnvel fyrirgreiðslu til 3ja aðila því að viðskiptum sé beint til þessara fyrirtækja.
Skil milli eðlilegrar bankastarfssemi og eignarhalds á samkeppnisfyrirtækjum sé því blandað saman með óeðlilegum hætti.
Við óskum eftir því að bankinn varpi skýrara ljósi á þessi atriði.
Mikilvægt er að bankar starfi eftir ströngum og gegnsæjum reglum sem komi í veg fyrir mismunun og tortryggni.
Það er öllum fyrir bestu," segir í bréfinu sem samtökin sendu til Íslandsbanka, Nýja Kaupþings og NBI.