Nafni FL Group var í gær formlega breytt í Stoðir, en sú breyting hefur lengi staðið til. Á hluthafafundi, sem lokaður var fjölmiðlum, var tekin ákvörðun um nafnbreytinguna.
Þá var ákveðið að færa niður allt hlutafé í fyrirtækinu og gefa út nýtt hlutafé í fjórar milljónir króna, til að uppfylla lagaskyldu þar um.
Félagið er í nauðasamningum við kröfuhafa og fengu stjórnendur heimild frá hluthöfum til að halda áfram að endurskipulagningu þess í samræmi við áður kynnta hagræðingaráætlun.
Þá var samþykktum félagsins breytt á þá lund að halda skuli aðalfund þess fyrir ágústlok, en samkvæmt eldri reglum þurfti fundurinn að fara fram fyrir maílok.
Eins og áður segir var fundurinn lokaður fjölmiðlum og sagði Júlíus Þorfinnsson, upplýsingafulltrúi FL Group, venjuna þá að aðalfundir séu opnir fjölmiðlum en ekki almennir hluthafafundir. Blaðamenn Morgunblaðsins hafa hins vegar bæði setið hluthafafundi sem og aðalfundi félagsins í gegnum tíðina.