Bandaríska útgáfufélagið The Washington Post tapaði 19,5 milljónum Bandaríkjadala eða 2,04 dölum á hlut á fyrsta ársfjórðungi á sama tíma og auglýsingatekjur flaggskips útgáfunnar, dagblaðsins Washington Post, drógust saman um rúmlega 30%. Jafnframt drógust auglýsingatekjur saman á vefmiðli útgáfunnar á fyrsta ársfjórðungi. Á fyrstu þremur mánuðum ársins í fyrra nam hagnaður útgáfunnar 39,3 milljónum dala eða 4,08 dölum á hlut.
Er þetta annað skiptið á innan við ári sem útgáfufélagið er rekið með tapi á ársfjórðungi en í fyrsta skipti sem slíkt gerðist í sögu félagsins var á öðrum ársfjórðungi í fyrra.
Tekjur Washington Post námu 1,05 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra námu þær 1,06 milljörðum dala.
Hlutabréf útgáfufélagsins lækkuðu um 12,59% á Wall Street í gærkvöldi.
Rekstrartap dagblaðahluta Post Co. nam 53,8 milljónum dala en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra skilaði sá armur félagsins 1,2 milljónum dala í rekstrarhagnað. Auglýsingatekjur prentúgáfunnar drógust saman um 33% en á vefnum drógust þær saman um 8%. Hafa auglýsingatekjur á netinu aldrei áður dregist saman hjá Post.