Þegar Edward Liddy tók að sér að stýra bandaríska tryggingafélaginu AIG í haust lýsti hann því yfir, að hann myndi aðeins þiggja 1 dal í árslaun meðan verið væri að koma fyrirtækinu á fæturna aftur en bandarísk stjórnvöld hafa lagt AIG til gríðarháar fjárhæðir til að halda því gangandi. Nú er komið í ljós að auk dalsins hefur Liddy fengið 460 þúsund dali, jafnvirði 59 milljóna króna, í ýmsar kostnaðargreiðslur.
Liddy tók við AIG að beiðni bandarískra stjórnvalda í september skömmu eftir að ríkissjóður landsins veitti fyrirtækinu 85 milljarða dala neyðarlán og eignaðist jafnframt 79,9% hlut í AIG.
AIG birti um mánaðamótin upplýsingar um reksturinn og þar kom fram, að auk dalsins, sem Liddy þiggur í laun, fékk hann 38.368 dali vegna kostnaðar við að leigja íbúð í New York en Liddy er frá Chicago. Þá fékk hann 162.686 dali greidda vegna lögfræðikostnaðar, 47.587 dali vegna kostnaðar við flugferðir milli New York og Chicago, 180.431 dal til að mæta skattgreiðslum af þessum hlunnindum og 31.348 dali vegna bílaleigubíla.
Fyrirtækið segir, að þessar greiðslur tengist því að Liddy bauðst til þess að taka að sér starfið í New York þótt hann og fjölskylda hans búi í Chicago.
Liddy tók við forstjórastarfinu af Robert B. Willumstad, sem hafði gegnt því í þrjá mánuði þegar Henry Paulson, þáverandi fjármálaráðherra, vék honum frá. Fyrir þessa þrjá mánuði fékk Willumstad 37,6 milljónir dala, jafnvirði 4,8 milljarða króna. AIG segir hins vegar, að 24,5 milljónir dala af þessari upphæð hafi verið kaupréttur á hlutabréfum, sem forstjórinn fyrrverandi hafi síðan afsalað sér formlega.