Erlendir kröfuhafar SPRON telja að Fjármálaeftirlitið (FME), sem er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda, hafi brotið á eignarréttar- og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar, hafi ekki haft nein lagaleg rök fyrir því að beita ákvæðum neyðarlaga gegn SPRON og hafi eyðilagt vörumerki fyrirtækisins þegar það tók yfir SPRON í mars síðastliðnum. Þetta vilja kröfuhafarnir meina að hafi valdið þeim miklu fjárhagslegu tjóni, sem FME og stjórnvöld séu ábyrg fyrir að bæta þeim. Þetta kemur fram í samantekt um stefnuna sem lögmenn kröfuhafanna sendu frá sér í dag.
Auk þess vilja kröfuhafarnir meina að Seðlabanki Íslands hafi með saknæmum og ólöglegum hætti hætt að styðja fjárhagslega við SPRON á ögurstundu í mars síðastliðnum, brotið gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar, mismunað kröfuhöfum og brotið gegn stjórnsýslulögum. Með þessu hafi Seðlabankinn valdið kröfuhöfunum fjárhagslegu tjóni sem hann sé ábyrgur fyrir að bæta þeim.
Um er að ræða hóp 27 banka frá Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu sem hafa stefnt annars vegnar FME og íslenska ríkinu og hins vegar Seðlabanka Íslands vegna yfirtökunnar á SPRON þann 21. mars síðastliðinn. Bankarnir höfðu, ásamt örðum, lánað SPRON meira en 441 milljónir evra, um 74,5 milljarða króna.