Þeim fjárfestum fer nú fækkandi sem ekki vilja gefa eftir hluta krafna sinna á bandaríska bílaframleiðandann Chrysler. Þessir fjárfestar, eða vogunarsjóðir, hafa verið ásakaðir um að reyna að þvinga Chrysler í gjaldþrot, með þeim afleiðingum að þúsundir manna missi vinnuna.
Þeim hefur hins vegar fækkað mjög eftir að dómstóll í New York ákvað seint í gærkvöldi að gera þeim skylt að gefa það upp hverjir þeir eru. Stjórnendur þeirra höfðu nefnilega ekki viljað að nöfn sín yrðu gefin upp, í málaferlum þeirra gegn fyrirtælunum um kaup Fiat á Chrysler, sem studdar eru af stjórnvöldum. Héldu þeir því fram að þeir hefðu orðið fyrir morðhótunum og vildu því fá nafnleynd.
Dómarinn ákvað hins vegar að engar trúverðugar hótanir hefðu borist þeim. Dómsgögn sýna nú að áður voru um 20 fyrirtæki í hópi þessara kröfuhafa, með um milljarð dollara í kröfur á Chrysler. Nú eru þau hins vegar bara níu eftir, með aðeins fimm mismunandi heimilisföng, og eiga 295 milljónir dollara í kröfur á Chrysler.
Á meðal fjárfesta í þessum hópi sem eftir stendur og vill ekki gefa eftir kröfur sínar eru Oppenheimer Funds, Stairway Capital og Group G Partners.