Tap af rekstri samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu nam 21.243 milljónum króna á síðasta ári. Eigið fé í árslok var neikvætt um 15.146 milljónir samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall neikvætt um 32,1% hjá samstæðunni. Samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8% og því uppfyllir sparisjóðurinn ekki skilyrði laga.
Fram kemur í yfirlýsingu stjórnar sjóðsins í ársreikningi, sem birtur var í gærkvöldi, að viðræður við lánardrottna sparisjóðsins hafi staðið yfir frá því á miðju ári 2008 í því skyni að framkvæma fjárhagslega endurskipulagningu á sjóðnum og tryggja að hann uppfylli skilyrði laga.
Þann 3. apríl 2009 var gerður samningur um sölu allra eigna Sparisjóðs Mýrasýslu til Nýja Kaupþings banka hf. á grundvelli samkomulags við helstu lánardrottna. Þann 27. apríl sl. voru útibú sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka í Borgarnesi sameinuð og starfsmenn sparisjóðsins færðust yfir til Nýja Kaupþings. Í kjölfarið sótti sparisjóðurinn um greiðslustöðvun og gert er ráð fyrir að ljúka samningum við lánadrottna með nauðasamningum í því skyni að tryggja jafnræði kröfuhafa.
121 milljón í laun og lífeyrisskuldbindingar
Í ársreikningnum kemur fram, að laun Gísla Kjartanssonar, sparisjóðsstjóra og uppgjör vegna lífeyrisskuldbindinga námu tæplega 121 milljón króna á síðasta ári og 23,3 milljónum króna á árinu 2007. Gísli lét af störfum í september og Bernhard Þór Bernhardsson tók við. Laun hans á síðasta ári námu 15,8 milljónum króna.
Þá námu laun Sigurðar Más Einarssonar, stjórnarformanns sparisjóðsins, 1,15 milljónum á síðasta ári og rúmlega 2,7 milljónum á árinu 2007. Ragnar Árnason tók við stjórnarformennsku sl. haust og námu laun hans á síðasta ári 902 þúsundum króna.
Í ársreikningnum segir, að í tengslum við starfslok Gísla Kjartanssonar hafi verið gert samkomulag um lífeyrisskuldbindingu hans sem nam að uppreiknaðri fjárhæð 180,7 milljónum króna. Greiðslur hafi numið 76,2 milljónum vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindingar og 44,8 milljónum vegna launa.
Í ársreikningnum kemur einnig fram, að sparisjóðsstjóri hafi fengið 31,6 milljónir króna að láni hjá sjóðnum á síðasta ári og 32,6 milljónir árið 2007. Þá námu lán til hlutdeildarfélaga rúmlega 1,3 milljörðum króna.