Heildarskuld íslenskra aðila gæti numið um 3100 milljörðum króna undir lok ársins eða um 220% af vergri landsframleiðslu ársins. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans. Á móti gætu eignir íslenskra aðila í útlöndum, numið um 1430 milljörðum þannig að hrein skuld sé 1670 milljarðar.
Seðlabankinn segir, að samkvæmt bráðabirgðatölum um stöðu erlendra lána innlendra aðila í lok fyrsta ársfjórðungs á þessu ári eftir að Straumur- Burðarás, SPRON, Sparisjóðabankinn og Baugur voru sett í greiðslustöðvun eða gjaldþrotameðferð, hafi skuldir innlendra aðila við erlenda numið 2500 milljörðum króna. Af þessum skuldum námu erlendar skuldir Seðlabanka, ríkissjóðs og sveitarfélaga 830 milljörðum, skuldir innlánsstofnana, sem nú eru að mestu í opinberri eigu, 300 milljörðum og skuldir opinberra fyrirtækja um 500 milljörðum. Samtals námu skuldir þessara aðila um 1630 milljörðum.
Erlendar skuldir einkaaðila, þar á meðal fyrirtækja í eigu erlendra aðila, námu 870 milljörðum króna. Seðlabankinn segir, að búast megi við að þessar skuldatölur hækki um u.þ.b. 600 milljarða síðar á þessu ári vegna lána sem ríkissjóður mun taka vegna greiðslna innlánstrygginga í nokkrum
Evrópulöndum. Heildarskuld íslenskra aðila gæti þá numið um 3100 milljörðum.
Seðlabankinn tekur fram, að búist sé við að hægt verði að endurgreiða stóran hluta af þessu 600 milljarða láni með andvirði erlendra eigna Landsbankans sem hægt verði að selja á næstu árum.
Á móti þessum skuldum eru erlendar eignir. Seðlabankinn segir, að mikið af þeim eignum, sem enn eru skráðar sem erlendar eignir íslenskra aðila, séu væntanlega ekki mikils virði. Sumar aðrar eignir ættu hins vegar að vera nokkuð tryggar og rétt skráðar, t.d. gjaldeyrisforði Seðlabankans sem nemur 430 milljörðum og erlendar eignir lífeyrissjóðanna sem nema 500 milljörðum. Þessir tveir liðir eru samtals 930 milljarðar króna.
Ef þessar eignir eru dregnar frá 3100 milljarða króna skuld fæst hrein skuld sem nemur 2170 milljörðum króna eða sem svarar rúmlega 150% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2009. Ef bætt er við eignum gömlu bankanna í Evrópu, sem verða seldar til að greiða niður lán vegna innistæðutrygginga í þessum löndum og nema um 500 milljörðum króna, fæst hrein skuld sem nemur 1670 milljörðum króna eða sem svarar tæplega 120% af áætlaðri vergri landsframleiðslu.
Seðlabankinn segir, að rétt sé að líta á þessar tölur sem efri mörk skuldabyrðarinnar því sennilegt sé að einhverjar eignir séu vantaldar. Þá megi gera ráð fyrir að einhverjar skuldir til viðbótar muni falla brott vegna frekari gjaldþrota.
Seðlabankinn segi jafnframt, að útlit sé fyrir að viðskiptahallinn á þessu ári verði um 2% en að jafnvægi verði í viðskiptum við útlönd á því næsta. Frá og með þeim tíma fari að myndast vaxandi afgangur á viðskiptajöfnuði. Hrein skuldabyrði muni því lækka hratt á næstu árum. Áætlað sé að skuldin hafi lækkað um 100 milljarða króna árið 2011 og lækki hratt eftir það. Allar slíkar áætlanir séu auðvitað mjög viðkvæmar fyrir þeim vaxtaforsendum sem miðað sé við.