Ljóst er að fjöldamörg íslensk fyrirtæki glíma við mikla, og jafnvel óyfirstíganlega rekstrarerfiðleika um þessar mundir. Framtíð þeirra liggur því hjá lánardrottnum, sem eru fyrst og fremst ríkisbankarnir þrír: Íslandsbanki, Nýja Kaupþing og Nýi Landsbankinn (NBI). Mörg fyrirtæki munu því annaðhvort verða seld upp í skuldir eða tekin yfir af kröfuhöfum sínum til að virði eigna þeirra haldist sem hæst.
Íslenskir stjórnmálamenn og bankarnir sjálfir hafa lagt á það mikla áherslu að þessi ferli verði eins opin, gegnsæ og hlutlæg og mögulegt er. Til þess að undirstrika þessar áherslur hafa meira að segja verið birtar sérstakar reglur á heimasíðum bankanna sem hafa á til hliðsjónar þegar kemur að endurskipulagningu fyrirtækjanna.
Það virðist hins vegar vera allur gangur á því hvernig þessum háleitu markmiðum er fylgt eftir því dæmi eru um að bankarnir hafi tekið yfir heilu fyrirtækin með beinum eða óbeinum hætti og komið þeim undir nýja eigendur án þess að þau væru auglýst til sölu. Dæmi um slíkar tilfærslur eru þegar BT-verslanirnar, Skífan, Egill Árnason og R. Sigmundsson voru seld til nýrra eigenda án þess að fyrirtækin væru auglýst til sölu. Þá vakti tilfærsla Nýja Kaupþings á rekstri Pennans í nýtt félag hörð viðbrögð hjá bæði birgjum og samkeppnisaðilum fyrirtækisins.
Stærstu eignarhaldsfélög landsins eru flestöll í gjaldþroti, greiðslustöðvun eða glíma við gífurlega erfiðleika. Þetta eru félög á borð við Stoðir/FL Group, Exista, Atorku, Milestone, Fons og Kjalar. Undir þessi félög heyra rekstrarfyrirtæki sem starfa á Íslandi, sjá landanum fyrir bráðnauðsynlegri þjónustu og veita hundruðum, ef ekki þúsundum manna atvinnu. Framtíð þessara rekstrarfélaga er því í höndum íslensku ríkisbankanna og ljóst að margir fjárfestar munu hafa áhuga á að kaupa sig inn í þau. Morgunblaðið kannaði hvort, og þá hvaða, félög eða fyrirtæki bankarnir hafi tekið yfir.
Úttektina er að finna í Morgunblaðinu í dag.