Tíu af 19 stærstu bönkum Bandaríkjanna stóðust ekki álagspróf sem fjármálaráðuneytið í Washington og fjármálaeftirlitið stóðu fyrir. Mest er áhættan hjá Bank of America. En alls er talið að bankarnir 10 þurfi nær 75 milljarða dollara innspýtingu fyrri nóvember nk. til að efla lausafjárstöðuna.
Þótt um sé að ræða mikið fé er það minna en margir sérfræðingar höfðu reiknað með að bankarnir þyrftu, að sögn The New York Times í dag. Timothy Geithner fjármálaráðherra sagði að bankar landsins ættu mikið verk óunnið við að öðlast á ný trúnaðartraust meðal almennings. það gætu þeir byggt upp með því að fara aftur að stunda útlán.
Gagnrýnt hefur verið að bankar sem þegar hafa fengið mikla styrki frá ríkinu skuli halda að sér höndum varðandai útlán og liggja á peningunum eins og ormar á gulli. Talið er að bankarnir 10 muni flestir geta eflt lausafjárstöðuna með því að selja eignir eða fá fé frá einkaaðilum með útgáfu nýs hlutafjár.