Seðlabankinn segir, að óvissa í tengslum við alþjóðlegu fjármálakreppuna gef ekki tilefni til að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum að svo komnu og höftin séu forsenda þess að hægt sé að draga verulega úr aðhaldi
í peningamálum, þ.e. að lækka stýrivexti.
Í Peningamálum, ársfjórðungsriti bankans, sem komu út í dag, segir að tekist hafi að nokkru leyti, að draga úr sveiflum í gengi krónunnar frá því að gjaldeyrismarkaðurinn tók aftur til starfa í byrjun desember 2008 og tekist hafi að koma í veg fyrir öfgakenndar gengissveiflur. Gengi krónunnar hafi þó sveiflast nokkuð frá þeim tíma.
Bankinn segir, að afgangur af utanríkisviðskiptum hafi ekki stutt við krónuna að því marki sem vænst var. Þetta hafi gert peningastefnunni erfiðara um vik að stuðla að enduruppbyggingu efnahags heimila og fyrirtækja og kallað á tiltölulega aðhaldssama peningastefnu í upphafi fjármálakreppunnar. Nú hafi verið dregið úr aðhaldinu en ennþá sé þörf á varkárni.
„Með því að hindra óheft útflæði fjármagns stuðla tímabundin gjaldeyrishöft einnig að stöðugra gengi krónunnar. Þar sem fjárfestar telja íslenskar fjáreignir mjög áhættusamar væri þörf á mjög miklum vaxtamun við útlönd til að styðja við krónuna ef slíkra hafta nyti ekki við og líklega einnig þegar þeim verður aflétt að lokum. Meðan veruleg óvissa er ríkjandi um erlendar skuldir þjóðarinnar, stöðu ríkisfjármála og endurskipulagningu fjármálakerfisins eru gjaldeyrishöft forsenda þess að hægt sé að draga verulega úr aðhaldi í peningamálum," segir í Peningamálum.
Þá segir þar, að horfur um alþjóðlegan hagvöxt og alþjóðaviðskipti hafi verið endurskoðaðar verulega niður á við. Horfurnar fyrir útflutningsdrifinn
hagvöxt á næstu misserum séu því háðar meiri óvissu en áður. Þetta feli í sér meiri samdrátt í framleiðslu á þessu ári, sem fresti efnahagsbatanum miðað við það sem spáð var í janúar. Þessu til viðbótar sé gert ráð fyrir verulega auknu aðhaldi í ríkisfjármálum í spánni, bæði í formi niðurskurðar ríkisútgjalda og aukinni skattbyrði næstu árin í því skyni að tryggja sjálfbærni í ríkisfjármálum. Atvinnuleysi muni þar af leiðandi haldast hátt lengur en spáð var í janúar.
Seðlabankinn segir einnig, að ekkert lát muni verða á hjöðnun verðbólgunnar sem þegar sé hafin. Því er spáð að verðbólga verði komin niður fyrir 10% þegar í sumar og að hún verði við verðbólgumarkmið bankans, 2,5%, snemma á næsta ári. Segir bankinn, að flestar vísbendingar um verðbólguvæntingar styðji þetta og benda til væntinga um hraða hjöðnun verðbólgu. Engu að síður eigi enn eftir að skapa verðbólguvæntingum trausta kjölfestu.