Umtalsverð vaxtalækkun í júní

Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, ásamt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans.
Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, ásamt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans. Ómar Óskarsson

Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, segir að peningastefnunefndin vænti þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar þann 4. júní. Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta. Hann segir að meira hafi dregið úr verðbólguhraða en áður var talið.

Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, segir að verðbólguþrýstingur hafi haldið áfram að hjaðna eins og búist var við. Tólf mánaða verðbólga hefur minnkað úr 18,6% í janúar í 11,9% í apríl. Til skemmri tíma litið hefur dregið enn meira úr verðbólguhraðanum.

Verðbólga nálægt 2,5% í byrjun ársins 2010

Ekki er reiknað með að gengislækkun krónunnar frá í mars muni seinka hjöðnun verðbólgunnar svo neinu nemi, þótt vísitala neysluverðs hafi hækkað heldur meira í apríl en vænst var. Þvert á móti benda nýjustu spár til þess að verðbólgan síðla árs 2009 og árið 2010 muni verða minni en spáð var í janúar. Verðbólga verður nálægt 2,5% markmiðinu í byrjun næsta árs. Sakir minni útflutnings og fjármunamyndunar er gert ráð fyrir að samdráttur innlendrar eftirspurnar og framleiðslu verði meiri á þessu ári en samkvæmt spánni sem birtist í janúar. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á fundi með fjölmiðlum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 2,5 prósentur í 13,0%.  Framvinda efnahagsmála frá síðustu yfirlýsingu nefndarinnar 8. apríl hefur verið í samræmi við fyrra mat hennar, að skilyrði fyrir áframhaldandi slökun peningalegs aðhalds séu til staðar.

„Skammtímamarkmið peningastefnunnar er stöðugleiki í gengismálum. Gengi krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt frá síðasta fundi nefndarinnar. Það sem helst hefur stutt gengið er umtalsverður afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum. Í ljósi undirliggjandi efnahagsþróunar má ætla að gengi krónunnar muni til lengri tíma litið vera hærra en það hefur verið að undanförnu. Við þeim vanda að farið sé í kringum gjaldeyrishöftin hafa stjórnvöld brugðist með lagabreytingu. Seðlabankinn er einnig að vinna að því í samvinnu við viðkomandi yfirvöld að auka eftirlit og herða framfylgd reglna," að því er fram kom á fundinum.

Skammtímakrónueign útlendinga 200-300 milljarðar króna

Þótt gert sé ráð fyrir að gjaldeyrishöftin verði til staðar um nokkurt skeið, vinnur Seðlabankinn að aðgerðum er miða að því að gera óþolinmóðum erlendum fjárfestum kleift að selja krónueignir án þess að gengið sé á gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Áætlað er að skammtímakrónueignir erlendra aðila nemi 200-300 ma.kr. Aðgerðir í því skyni að stuðla að umbreytingu hluta þessara eigna ætti að draga úr tilhneigingu til útflæðis fjármagns. Gengi krónunnar á aflandsmarkaði hefur hækkað umtalsvert nýlega. Aðgerðirnar ættu að stuðla að því að gengi krónunnar þar nálgist gengi hennar á innlendum gjaldeyrismarkaði, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Peningastefnunefndin gerir einnig ráð fyrir að aðhald í ríkisfjármálum verði aukið í sumar. Gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði útgjalda hins opinbera og að skattar verði hækkaðir, auk annarra tekjuaukandi aðgerða sem kæmu til framkvæmda í áföngum fram til ársins 2011. Gert er ráð fyrir að jöfnuður náist í rekstri ríkisins árið 2012 og að þannig skapist forsendur fyrir hægfara lækkun skulda ríkissjóðs.

Til viðbótar auknu aðhaldi í ríkisfjármálum, mun endurskipulagning starfsemi viðskiptabankanna, sem færir rekstur þeirra í eðlilegt horf, hafa í för með sér að lántakendur standi frammi fyrir lánskjörum sem endurspegla fjármögnunarkostnað bankanna. Það felur í sér aðhaldssamari fjármálaskilyrði.

„Ofangreindar aðhaldsaðgerðir, aukinn stöðugleiki krónunnar, hert gjaldeyrishöft, sérsniðnar aðgerðir til að leyfa óþolinmóðustu fjárfestunum að selja krónueignir á skipulegan hátt og hraðari verðhjöðnun en áður var gert ráð fyrir eykur svigrúm til að slaka á í peningamálum, eins og endurspeglast í ákvörðun peningastefnunefndarinnar í dag. Það er viðeigandi að samspil efnahagsaðgerða færist í átt að auknu aðhaldi í fjármálum hins opinbera og slökun peningalegs aðhalds.

Varfærin en þó veruleg slökun peningastefnunnar mun er fram líða stundir stuðla að efnahagsbata. Verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni. Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta," að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Vilja sjá meiri lækkun innlánsvaxta

Aukin vitneskja um horfur greiðslujafnaðar við útlönd, samþykkt aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum til langs tíma, tvíhliða- og marghliða lánasamningar sem styrkja gjaldeyrisforðann og árangur í endurskipulagningu fjármálageirans eru forsendur fyrir víðtækara afnámi gjaldeyrishafta. Þrátt fyrir að aðstæður innanlands og utan geri enn ekki kleift að afnema gjaldeyrishöftin án þess að hætta á alvarlegu ójafnvægi skapist, hefur náðst árangur á mörgum sviðum. Það ætti að veita svigrúm til að afnema þau í áföngum.

Þótt endurskipulagningu fjármálakerfisins hafi miðað áleiðis er nauðsynlegt að grípa til ýmissa aðgerða í því skyni að endurreisa lífvænlegt bankakerfi. Til þess þarf að lækka kostnað, minnka umfang reksturs, draga úr gjaldeyrisáhættu og sjá til þess að lánskjör endurspegli raunverulegan fjármögnunarkostnað bankanna. Almennt séð þurfa bankarnir að setja fram viðskiptaáætlun sem leiðir til hagnaðar í rekstri. Koma þarf á gagnsæju fyrirkomulagi eignarhalds sem felur í sér skýra ábyrgðarskyldu. Mikilvægt er að lækkun stýrivaxta verði fylgt eftir með lækkun innlánsvaxta, helst meiri en sem nemur lækkun stýrivaxta.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt 4. júní 2009.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK