Vegna þess trúnaðar, sem almennt á að ríkja um fjármálaþjónustu segist Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Kaupþings og fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabankans/Icebank, ekki geta tjáð sig um lánveitingar síðarnefnda fyrirtækisins á Flórída.
En Sparisjóðabankinn hefur höfðað innheimtumál vegna 8,6 milljóna dala láns sem veitt var til hótelkaupa á Miami Beach á Flórída í Bandaríkjunum árið 2006.
Segir Finnur, að þegar hann var bankastjóri Icebank á árunum 2002-2007 hafi bankinn tekið þátt í mörgum verkefnum innanlands og utan á sviði útlána og annarrar bankaþjónustu. Bankinn hafi annast erlend samskipti og viðskipti fyrir sparisjóðina frá árinu 1986 og á þeim tíma byggt upp margvísleg fjármögnunar- og viðskiptatengsl. Segir hann að umræða um einstök mál, þar sem halli undan fæti, gefi skakka mynd af rekstri bankans og öllu því góða starfi sem þar hafi farið fram.
„Ég vil einnig benda á að allar ákvarðanir sem teknar eru í banka eru háðar óvissu. Það að einstök verkefni gangi illa þarf því í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Það getur gerst hvort sem góðæri eða hallæri er ríkjandi því þær forsendur sem ráða ákvörðun um einstök verkefni geta brugðist með þeim hætti sem enginn sá fyrir þegar ákvörðun var tekin. Lánasérfræðingar banka leggja mat á þau útlánaverkefni sem þeim berast og síðan eru mál lögð fyrir lánanefndir til endanlegrar ákvörðunar. Ef verkefni eru samþykkt, fylgist útlánaeftirlit með útlánasamningum og frammistöðu lántaka. Reynt var að sinna þessum þáttum af vandvirkni og samviskusemi þann tíma sem ég var hjá Sparisjóðabankanum/Icebank. Hins vegar skal ég fúslega viðurkenna að efnahags- og fjármálakreppan í heiminum er orðin miklu langvinnari og dýpri en ég taldi á þeim tíma ástæðu til að óttast og því kunna útlánatöp að verða mun meiri en ráð var fyrir gert,“ segir Finnur.