IFS Greining: Skuldir heimilanna 1.995 milljarðar króna

Skuldir almennings við lánakerfið námu 1.995 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2009, samkvæmt mati IFS Greiningar, og heildareign almennings í íbúðarhúsnæði um 2.475 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall heimilanna er því undir 20% miðað við framangreindar forsendur.

Í vefriti IFS Greiningar um efnahagsmál kemur fram að þegar staða heimilanna er skoðuð er ekki nóg að skoða aðeins skuldir vegna íbúðarhúsnæðis.

„Flest lán á Íslandi s.s. bílalán og neyslulán krefjast sjálfskuldarábyrgðar. Þetta þýðir að fasteignir eru að veði og því nokkuð villandi að taka ekki framangreind lán í reikninginn þegar staða heimilanna er metin. Bílalán og neyslulán eru oftast í erlendum gjaldmiðli á meðan lán til fasteignakaupa eru oftast verðtryggð," samkvæmt vefriti IFS Greiningar.

Hætta á frekari lækkun krónunnar

Segir í ritinu að hætta sé á að gengi krónunnar veikist aftur nú í júní ef vandamál vegna vaxtagjalddaga verða ekki leyst sem fyrst. Ef núverandi ástand með háum vaxtagreiðslum úr landi verður viðvarandi er hætta á að gengi krónu verði veikt til lengri tíma.

Í júní eru ríkisbréf á gjalddaga fyrir 86 milljarða. Þar af eiga erlendir aðilar um 70 milljarða. Hvert framtíðar útflæðið verður vegna þessara 70 milljarða ræðst að öllu leyti af því hvaða vaxtastig verður í júní við endurfjárfestingu, samkvæmt riti IFS Greiningar.

Ef Seðlabankinn ákveður að halda áfram með varfærið stýrivaxtaferli mun það leiða til hærri ávöxtunar á fyrrgreindri fjárhæð sem setur meiri þrýsting á krónu til veikingar. Veikari króna kemur svo fram í hærri verðbólgu sem gengur gegn markmiðum Seðlabankans.

„Við höfum endurskoðað spá okkar um þróun krónunnar og gerum ráð fyrir að gengið verði um 7% veikara að meðaltali en í fyrri spá og að gengisvísitalan verði 201 stig að meðaltali árið 2009," að því er segir í vefriti IFS Greiningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK