Nýtt útibú MP Banka var opnað klukkan 13 í dag í Borgartúni 26 á 10 ára afmælisdegi MP. Í húsinu var áður til húsa útibú SPRON, en allir starfsmenn útibúsins eru fyrrverandi starfsmenn sparisjóðsins. Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP, sagði við þetta tilefni að markmiðið væri að bankinn yrði sá best rekni og hagkvæmasti banki landsins, án þess þó að slegið yrði af kröfum um persónulega þjónustu við viðskiptavini.
„Markmiðið er að vera með eina öfluga þjónustumiðstöð fyrir viðskiptavini okkar, en að afgreiðslan fari að sem mestu leyti fram í gegnum netið. Ísland er sérstakt að því leyti hve netnotkun er almenn og með réttri notkun nettækninnar er hægt að reka banka með mun hagkvæmari hætti en með þéttriðnu og fjárfreku útibúaneti.“
MP hafði áður gert tilboð í vörumerki og ákveðnar eignir SPRON, en það mál hefur ekki enn verið til lykta leitt. Margeir sagði í samtali við Mbl.is að nú þegar bankinn væri búinn að stofna sinn eigin netbanka og útibú hefðu aðstæður breyst. Hann hefði hins vegar enn áhuga á að kaupa tækjabúnað og aðrar svipaðar eignir SPRON, en eins og sakir standa nú leigir hann þennan búnað af skilanefndinni.