Auðkýfingurinn umdeildi, George Soros, segir að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til víða um heim, til að vinna á móti fjármálakreppunni, séu að skila árangri. Haft er eftir honum í þýska dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung, að ríki Asíu verði væntanlega fyrst til að ná sér vel á strik.
„Það frjálsa fall sem verið hefur í efnahagslífinu hefur stöðvast og hruni fjármálakerfisins hefur verið afstýrt,“ segir Soros í samtali við Frankfurter Allgemeina Zeitung. Hann segir að auk þess sem farið sé að votta fyrir viðsnúningi í Asíu eigi það einnig við um Bandaríkin. Þá segir að hann geri ekki ráð fyrir því að Bandaríkjadollar muni veikjast gagnvart evru frá því sem nú er.
Hann segir einnig að það hafi sýnt sig að fjármálakreppan hafi sýnt fram á það hvað það hafi mikið að segja fyrir þau Evrópuríki sem búi við veikt hagkerfi, að vera hluti af evrusvæðinu.
George Soros er einna helst frægur fyrir fjárfestingar vogunarsjóðs síns árið 1992, þegar hann auðgaðist gríðarlega á því að selja sterlingspund rétt fyrir mikla gengisfellingu og kaupa síðan pund aftur.