Skuldastaða skýrist ekki fyrr en Icesave samningar eru í höfn

Retuers

Raunveruleg skuldastaða þjóðarinnar mun ekki skýrast að fullu leyti fyrr en samningar vegna Icesave eru í höfn, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þar kemur fram að þegar áætlun stjórnvalda um ríkisfjármál verði kynnt innan 100 daga þá muni óvissa varðandi Icesave og hversu stór upphæð vegna þeirra fellur á ríkissjóð einnig hverfa.

Samkvæmt 100 daga áætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók til starfa í gær mun ýmislegt varðandi stöðu þjóðarbúsins og efnahagshorfurnar framundan skýrast nú í sumar. „Allt frá bankahruninu í haust hefur óvissa verið í forgrunni í efnahagsmálum þjóðarinnar en vonir standa nú til að þessari miklu óvissu fari að létta sem eru afar jákvæðar fréttir. Því fyrr sem þeirri miklu óvissu sem nú ríkir léttir getur viðspyrna hafist og heimili og fyriræki í landinu búið sig undir það sem framundan er. Gangi áætlun ríkisstjórnarinnar eftir verður mörgum mikilvægum spurningum um framtíðina svarað fyrir þann 17. ágúst næstkomandi, að 100 dögum liðnum," að því er segir í Morgunkorni.

Allt frá því að ljóst varð að skuldir íslenska ríkisins hafa aukist verulega í kjölfar bankahrunsins og munu að öllum líkindum slaga hátt upp í landsframleiðslu þessa árs við næstu áramót hefur niðurskurður í ríkisfjármálum verið yfirvofandi.

Þá gerir efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrisjóðsins ráð fyrir því að aðhald í ríkisfjármálum verði aukið verulega strax á næsta ári og að ríkissjóður muni ná jafnvægi árið 2012, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.

„Öllum er ljóst að til þess að það gangi eftir þarf að grípa til bæði niðurskurðar ríkisútgjalda og breikkunar á tekjustofni með auknum sköttum. Hingað til hafa þó engin svör fengist um hvaða aðgerða stjórnvöld ætla að grípa til í þessum tilgangi. Svörin við þessum spurningum munu þó liggja fyrir að 100 dögum liðnum þegar hulunni verður svipt af áætlun stjórnvalda um ríkisfjármál til millilangs tíma og forsendur fjárlaga 2010 verða afgreiddar í ríkisstjórn."

Mikil óvissa hefur ríkt um íslensku bankana og hvernig endurreisn þeirra verður háttað. Nýju bankarnir búa enn við að efnahagsreikningar þeirra eru enn ekki tilbúnir sem hefur tafið fyrir endurfjármögnun þeirra. Þá ríkir mikil óvissa varðandi framtíðarstöðu þeirra og eignarhald, að því er segir í Morgunkorni.

„Þetta mun þó senn skýrast ef marka má 100 daga áætlunina en samkvæmt henni mun ákvörðun varðandi eigendastefnu og framtíðareignarhald bankanna liggja fyrir að 100 dögum liðnum, sem og ákvörðun um mögulegt erlent eignarhald bankanna. Þá verður endurfjármögnun bankanna lokið innan 100 daga sem mun gera þá að fullu starfhæfa á nýjan leik.

Þá ætlar ríkisstjórnin að hafa lokið endurskipulagningu sparisjóða fyrir þann 17. ágúst næstkomandi en í þeim tilgangi verður lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um sparisjóði nú strax á sumarþingi. Starfhæft og virkt fjármálakerfi er mikilvæg undirstaða í hverju hagkerfi og því er það án efa eitt mikilvægasta verkefnið framundan að ljúka endurreisn þess," samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka