Fjármagnsskipan Icelandair Group mun væntanlega breytast umtalsvert á næstu vikum, að því er forstjóri félagsins, Björgólfur Jóhannsson, sagði á kynningarfundi í gær. Kom ekki nánar fram á fundinum hvað felast mundi í þessum breytingum. Annað hvort mun félagið selja eignir eða auka hlutafé. Fram kom á fundinum að félagið vinni að lausn með helsta kröfuhafa þess.
Vaxtaberandi skuldir Icelandair Group námu í lok fyrsta ársfjórðungs 44,5 milljörðum króna og er um helmingur þeirra skammtímaskuldir.
„Nauðsynlegt er fyrir félagið að grynnka á skuldum sínum, en miðað við núverandi stöðu er óljóst hversu hlutafé félagsins er mikils virði. Hægt er að lækka skuldir með sölu á einstökum eignum eða aukningu hlutafjár, en við núverandi aðstæður eru báðar leiðir erfiðar,“ segir Valdimar Halldórsson sérfræðingur hjá IFS.
Uppgjör Icelandair var undir væntingum IFS, en rekstur SmartLynx í Lettlandi og Icelandair Cargo gekk fremur illa á tímabilinu og verr en gert var ráð fyrir. Á fjórðungnum var 3,6 milljarða króna tap á rekstri Icelandair, en IFS hafði spáð 2,3 milljarða króna tapi.