Handelsbanken í Svíþjóð býður nú viðskiptavinum sínum vaxtalaus lán. Verða um 400 útibú bankans í landinu opin næstkomandi laugardag til að mæta eftirspurn, sem væntanlega verður eftir þessum lánum.
Að sögn fréttavefjar Sænska dagblaðsins geta viðskiptavinir Handelsbanken fengið allt að 100 þúsund sænskar krónur, jafnvirði um 1,6 milljóna íslenskra króna. Lánin eru veitt vaxtalaus í ár en að þeim tíma liðnum geta viðskiptavinir greitt þau upp eða breytt þeim í ný lán sem bera markaðsvexti.
Bankinn vill með þessu nýta sér að sænsk stjórnvöld hafa tímabundið heimilað að kostnaður við endurbætur á húsum verði frádráttarbær frá skatti. Er markmiðið að örva atvinnulífið og einkaneyslu.