Í ársreikningi Teymis fyrir árið 2007 segir að það hafi verið „stefna samstæðunnar að veita aðeins dótturfélögum ábyrgðir.“ Á sama tíma var félagið hins vegar í ábyrgðum fyrir skuldum félaga í eigu Árna Péturs Jónsson, forstjóra Teymis, og Ólafs Þórs Jóhannessonar, fjármálastjóra félagsins.
Teymi tók yfir félög stjórnendanna tveggja, og skuldir þeirra, í október. Skuldin, sem er við Íslandsbanka, stóð í 829 milljónum króna í lok febrúar.
Ólafur Þór sagði í Morgunblaðinu í gær að skuldbindingarnar hefðu alltaf verið færðar í ársreikninga Teymis. Í honum kemur hins vegar einungis fram að stjórnendurnir tveir hafi nýtt sér kauprétti sína. Teymi var á þessum tíma almenningshlutafélag í eigu 985 mismunandi hluthafa. Samkvæmt samningum stjórnendanna tveggja þá gátu þeir hagnast á kaupum sínum en aldrei tapað.
Félag í eigu Þórdísar Jónu Sigurðardóttur, fyrrum stjórnarformanns Teymis, var sjöundi stærsti eigandi Teymis þegar það var skráð af markaði. Aðspurð hvort hún hafi notið sömu fyrirgreiðslu og stjórnendur félagsins varðandi ábyrgðir segir Þórdís svo ekki vera. Eignarhlutur hennar hafi verið í eigin félagi og það sé enn í hennar eigu með þeim skuldbindingum sem því fylgja. Þórdís segist ennfremur ekki vita til þess að Teymi hafi gengið í viðlíka ábyrgðir fyrir aðra stjórnar- eða starfsmenn en Árna Pétur og Ólaf Þór.