Síðasta rekstrarár var án efa það allra erfiðasta í sögu Byrs sparisjóðs, að mati Jóns Kristjánssonar, stjórnarformanns sjóðsins. Segir hann að við hrun stóru bankanna þriggja hafi allar forsendur fyrir rekstri sjóðsins gjörbreyst. Erlendir lánadrottnar hafi nú nánast skrúfað fyrir öll lán til íslenskra fjármálafyrirtækja og nánast allt traust milli aðila á fjármálamarkaði hafi nánast horfið á einni nóttu.
Eiginfjárhlutfall Byrs sé nú ríflega 8%, en lögbundið lágmark er 8%. Segir hann að sparisjóðurinn geti því illa tekið frekari áföllum. Hlutfallið sé nú komið undir það lágmark sem kröfuhafar sjóðsins hafi krafist. Þeir hafi hins vegar samþykkt að falla tímabundið frá þeim kröfum.
Meðal lausna, sem Byr gæti gripið til nefnir hann stofnfjáraukningu eða samningagerð við kröfuhafa um breytingu á kröfum í stofnfé. Þá gæti ríkið lagt sjóðnum til nýtt stofnfé á grundvelli neyðarlaga. Segir hann að fyrsta leiðin sé ekki raunhæf, enda verði frekari byrðar ekki lagðar á stofnfjáreigendur.
Segir hann að enn sé ekki ljóst hvort ríkið muni eignast hlut í Byr, eða hversu stór sá hlutur yrði.
Gríðarlega góð mæting er á aðalfundi Byrs sparisjóðs, sem hófst rétt í þessu. Lauslega áætlað sitja um sex hundruð stofnfjáreigendur fundinn, sem haldinn er á Hilton Nordica. Á fundinum verður kosin ný stjórn sparisjóðsins og eru tveir listar í framboði.