Hefðu hrunið fyrr eða síðar

Kaarlo Jännäri.
Kaarlo Jännäri. mbl.is/Árni Sæberg

Rekstrarform íslensku viðskiptabankanna þriggja var svo áhættusækið að þeir hefðu hrunið á endanum þótt ekki hefði komið til hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu, að mati  Kaarlo Jännäri, forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins. Á árlegum SFF-degi Samtaka fjármálafyrirtækja sagði hann hins vegar að vissulega hefði alþjóðlega kreppan orðið til þess að skaðinn hér á landi hafi orðið mun meiri en ella.

Hefur hann lagt það til við ríkisstjórn Íslands að nánari samvinna verði með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, jafnvel að stofnanirnar verði sameinaðar.

Bankaleyndin mikilvæg grundvallarregla

Lagði hann áherslu á að þótt eftirlit með fjármálafyrirtækjum yrði aukið þyrfti að standa vörð um grundvallarregluna um bankaleynd. Sú regla skipti gríðarlegu máli, enda verði einstaklingar og fyrirtæki að geta treyst því að óviðkomandi geti ekki nálgast slíkar upplýsingar. Segir hann að vissulega verði eftirlitsstofnanir og lögregla að geta nálgast þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að upplýsa mál, en aðgengi þeirra að upplýsingum, sem annars lúta bankaleynd, verði að vera byggt á rökstuddum grun.

Mikilvægasta ráðlegging Jännäri til Íslendinga segir hann að Seðlabanki og Fjármálaeftirlit verði að hafa víðtækari heimildir til að taka á málum af eigin frumkvæði. Hins vegar eigi ekki að færa stofnunum einræðisvald eða að þau geti gripið inn í rekstur bankans nema ef fjármálakerfið allt sé í hættu.

Lítil tiltrú á álagspróf

Hvað varðar stöðuna á alþjóðamörkuðum segir hann að markaðir séu ekki enn sannfærðir um að svokallaðar eitraðar eignir hafi verið að fullu hreinsaðar úr eignasafni fjármálafyrirtækja þrátt fyrir gríðarleg fjárframlög frá ríkisstjórnum. Markaðir taki mismikið mark á álagsprófum, sem gerð hafi verið á stærstu bönkum Bandaríkjanna nýlega. Benti hann á að íslensku bankarnir hafi allir staðist slík álagspróf, jafnvel um vorið 2008, þegar þeir hafi verið komnir í mjög mikil vandræði.

Hvað varðar slík álagspróf og tiltrú markaða á fjármálafyrirtækjum segir hann að staðan jafnvel enn alvarlegri í Evrópu. Þar sé engin heildarmynd á því hvernig slík próf eigi að fara fram, heldur sé það í höndum viðkomandi ríkja. Því geti verið erfitt fyrir fjárfesta að meta hvort mark sé takandi á einstökum álagsprófum. Fagnar hann því að unnið sé að samhæfingu slíkra álagsprófa og annars fjármálaeftirlits meðal Evrópusambandsríkja.

ESB hart í horn að taka

Segir hann að forgangsatriði sé að endurskipuleggja og endurfjármagna bankakerfið. Afar mikilvægt sé að endurreisa orðspor Íslands á erlendum vettvangi, meðal annars með viðræðum við þá erlendu aðila sem hagsmuni hafi af stöðu íslensku bankanna. Þá segist hann telja að Ísland myndi hagnast á því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Aðildarviðræður muni hins vegar ekki verða auðveldar. Þegar viðræður verði hafnar af alvöru muni framkvæmdastjórnin líklega koma fram af meiri festu en margir Íslendingar geri sér grein fyrir nú. Það að hefja viðræður myndi hins vegar styrkja orðspor Íslendinga á erlendri grund.

Sagðist hann að lokum hafa fulla trú á því að Íslendingar myndu ná að vinna sig úr þeim vanda sem þeir standa frammi fyrir nú og koma út úr honum sterkari fyrir vikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK