Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, líkti fjármálahruninu við Vestmannaeyjagosið veturinn 1972-1973 á árlegum SFF-degi Samtaka fjármálafyrirtækja í dag. Sagði hann að líkt og með gosið muni allir núlifandi Íslendingar alltaf muna hvað þeir voru að gera þennan vetur. Vonast hann til þess að Íslendingar taki á sínum málum nú líkt og Vestmannaeyingar gerðu á sínum tíma. Hafi þeir ekki lagt árar í bát, heldur snúið heim aftur, mokað ösku af húsþökum og hafist handa við endurbyggingu.
„Nútímasamfélag þrífst ekki án fjármálaþjónustu og því var til þeirra aðgerða gripið, sem gert var í haust. Nauðsynlegt þótti að tryggja áframhaldandi bankaþjónustu og greiðslumiðlun og með miklu átaki Seðlabanka og fjármálafyrirtækja og starfsmanna tókst það. Eiga þeir hrós skilið fyrir það,“ sagði Steingrímur.
Ekki allir undir sama hatt
Sagði hann mikilvægt sé að ekki séu allir starfsmenn í fjármálageiranum settir undir sama hatt þótt einhverjir stjórnendur hafi hagað sér á gagnrýniverðan hátt. Mistökin séu til þess að læra af þeim en ekki bara til að sýta þau. Menn hafi lært mikið um hvernig ekki eigi að haga skipulagningu fjármálakerfis og rekstri fjármálafyrirtækja.
Vildi hann ekki nefna neinar tímasetningar um hvenær endurfjármögnun viðskiptabankanna ljúki, en sagðist vonast til að það gerðist innan tíðar. Sagði hann að viðskiptaráðherra muni leggja fram frumvarp sem innihalda mun reglur um þessa endurfjármögnun, en það frumvarp hafi verið unnið af viðskipta- og fjármálaráðuneytum saman.
Segir hann að á næstu mánuðum og misserum muni þurfa að fara fram hagræðing og endurskipulagning á íslensku fjármálakerfi. Endurskipulagningin verði til góðs og til bóta horfir þegar allt opinbert eftirlit og regluverk mun fara undir eitt ráðuneyti, efnahagsráðuneyti.
Siðferðileg rök
Háir stýrivextir og gjaldeyrishöft eru hlutir sem Íslendingar þurfa að vinna sig frá, enda séu þau mjög íþyngjandi fyrir heimili og fyrirtæki. Mikilvægt sé að stýrivextir lækki hratt og að fjármálastofnanir nýti þær aðstæður sem þannig skapist til að örva atvinnulífið.