Seðlabankinn í klemmu

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar

Ákveðin yfirlýsing Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um takmarkað svigrúm Seðlabankans til frekari lækkunar stýrivaxta hefur vakið mikla athygli í morgun. Gengur skoðun hans gegn yfirlýsingu Svein Harald Øygard, seðlabankastjóra, 7. maí síðastliðinn um umtalsverða stýrivaxtalækkun í júní verði ákveðnar forsendur uppfylltar.

Rozwadowski hélt erindi á degi Samtaka fjármálafyrirtækja í morgun. Þar hélt hann því meðal annars fram að vaxtalækkunin, sem þegar er orðin, væri búin að ná því marki sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn teldi hægt að fara í við núverandi aðstæður. Stjórnvöld ættu í raun ekki skilið að stýrivextir yrðu lækkaðir meira á meðan þau hefðu ekki uppfyllt þau skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti þegar hann veitti Íslendingum neyðarlán.

Mikilvægar forsendur

Mat Rozwadowski á núverandi aðstæðum fer gegn yfirlýsingu Svein Harald Øygard, seðlabankastjóra, þegar stýrivaxtalækkun bankans var kynnt 7. maí sl. Øygard hélt því fram að stýrivextir myndu lækka umtalsvert til viðbótar í byrjun júní væru ákveðnar forsendur uppfylltar. Í framhaldinu yrði lækkun stýrivaxta tekin í smærri skrefum.

Reyndar lagði seðlabankastjóri áherslu á þessar forsendur fyrir frekari stýrivaxtalækkunum. Þær voru helstar stöðugt gengi krónunnar, mikið aðhald í ríkisrekstri, samningar um Icesave yrðu kláraðir, útganga jöklabréfaeigenda og endurskipulagning bankanna.

Þrýstingur á ríkisstjórnina

Því má halda fram að áherslur seðlabankastjóra og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu samhljóma í þessum efnum. Það virðist greinilegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er, með orðum sendifulltrúa hans hér á landi, að setja enn frekari þrýsting á stjórnvöld að uppfylla þau skilyrði sem sett voru fyrir samstarfinu við sjóðinn. Hins vegar gaf  Øygard sterklega í skyn að von væri á umtalsverðri stýrivaxtalækkun í júní á meðan Rozwadowski sagði það ekki hægt við núverandi aðstæður.

Fátt bendir til á að mikið breytist á vettvangi stjórnmálanna það sem eftir lifir af maí, sem gæti mýkt þá afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ljóst er að þrýstingurinn er núna á ríkisstjórnina, að skapa þau skilyrði svo hægt sé að lækka stýrivexti.

Seðlabankanum til ráðgjafar

Svo er stóra spurningin sem erfitt er að fá svar við. Hversu miklu ræður Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þegar ákvörðun um stýrivexti er tekin? Formlega svarið er að sjóðurinn er bara ráðgefandi en ákvörðunin sjálf á hendi peningastefnunefndar. Fleiri en færri telja að þessi ráð sjóðsins séu í raun fyrirskipun um hvernig halda skuli á málum hér á landi vilji stjórnvöld halda áfram samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, á …
Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, á blaðamannafundi nýlega. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK