Skuldabréf hafa fallið í verði í Kauphöll Íslands í dag í kjölfar yfirlýsingar sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í morgun, að aðstæður bjóði ekki uppá frekari stýrivaxtalækkun. Velta með skuldabréf hefur verið mikil eða tæpir 11 milljarðar króna.
Styttri skuldabréfin hafa lækkað meira en þau sem eru með lengri líftíma. þannig hafa ríkisbréf, sem eru á gjalddaga 2019, lækkað um 1,79% í viðskiptum dagsins. Verðtryggð íbúðabréf hafa einnig lækkað. Íbúðabréf á gjalddaga 2024 hafa til dæmis lækkað um rúmt 1%.
Yfirlýsing sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í morgun gaf til kynna að stýrivextir yrðu ekki lækkaðir umtalsvert í júní eins og Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir. Þeir sem eiga í viðskiptum á skuldabréfamarkaðnum lesa í þessi skilaboð og telja greinilega að sú hækkun sem hefur verið á áður útgefnum skuldabréfum haldi ekki þar sem vextir verði lengur hærri en væntingar stóðu til.