Tap á rekstri fjárfestingarbankans Askar Capital nam 12,4 milljörðum króna á síðasta ári en var 0,8 milljarðar árið á undan. Eiginfjárhlutfall bankans er neikvætt um 5,3% í lok síðasta árs. Kröfuhafar munu taka bankann yfir á hluthafafundi, sem haldinn verður í lok maí.
Í tilkynningu um ársuppgjör Askar, sem send hefur verið til Kauphallar Íslands, segir að varúðarniðurfærslur vegna verðfalls eigna hafi leitt til þess að eiginfjárhlutfall samstæðunnar hafi farið undir lögbundið lágmark. Nánari skoðun á eigna- og útlánasafni í mars og apríl leiddu til frekari afskrifta í ársreikningi ársins 2008 og sé eiginfjárhlutfall samstæðunnar því neikvætt í lok árs 2008.
Fjármálaeftirlitið veitti félaginu frest til 15. maí til að koma eiginfjárhlutfalli samstæðunnar í lögbundið horf. Fram kemur í tilkynningunni, að allir óveðtryggðir lánveitendur móðurfélags Askar hafi samþykkt tillögur félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Þessir kröfuhafar muni taka yfir félagið á hluthafafundi sem haldinn verður í lok maí.
Á þeim fundi verður jafnframt lögð fram tillaga stjórnar félagins um að færa hlutafé núverandi hluthafa niður að fullu. Núverandi hluthafar Askar Capital eru Moderna Finance AB, sem á 80,8% hlut, og 15 aðrir hluthafar sem samtals eiga 19,2% hlut. Nýir hluthafar verða, nái
tillagan fram að ganga á hluthafafundi, Glitnir banki með um 53% hlut, Saga Capital með um 18% hlut og 10 aðrir hluthafar með samtals um 29% hlut.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar m.v. 31. mars 2009, var um 19%, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiða af fjárhagslegri endurskipulagningu. Þessar breytingar sem leiða af fjárhagslegri endurskipulagningu eru háðar samþykki Fjármálaeftirlitsins um eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.