Gengi krónunnar hefur undanfarinn mánuð styrkst um 40% gagnvart evru á svonefndum aflandsmarkaði, þ.e. í viðskiptum erlendra banka. Á sama tíma hefur gengi krónu gefið eftir um tæp 3% gagnvart evru á innlendum gjaldeyrismarkaði.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka í dag, að evran kostar nú u.þ.b. 200 krónur á aflandsmarkaði en ríflega 172 kr. á innlendum markaði. Munurinn nemur 16% og hefur hann ekki verið minni frá því í upphafi árs.
Í millitíðinni hafa gjaldeyrishöft hérlendis hins vegar verið hert töluvert, sem að öðru jöfnu ætti að auka á einangrun þessarra tveggja markaða hvors frá öðrum.
Íslandsbanki nefnir ýmsar hugsanlegar skýringar á þessari þróun.
Til að mynda sé sá möguleiki fyrir hendi að hluti þeirra erlendu fjárfesta, sem hafa fengið að skipta vaxtatekjum í krónum fyrir evrur á undanförnum mánuðum, hafi kosið að fjárfesta að nýju í krónum. Þessir aðilar eigi þá viðskipti á aflandsmarkaði við aðra erlenda fjárfesta sem séu tilbúnir að selja krónueignir sínar á aflandsgenginu og njóti góðs af þeim gengismun, sem sé á milli markaðanna tveggja. Heildaráhrifin séu þau að gengi innanlands gefi eftir en á móti sé þrýstingi á krónuna á aflandsmarkaði aflétt.
Einnig segir bankinn hugsanlegt, að erlendir aðilar hafi þurft að afla sér króna til að standa skil á greiðslum til innlendra lánveitenda eða eigenda skuldabréfa í krónum erlendis. Þetta kunni til dæmis að eiga við um einhverja skuldunauta gömlu bankanna eða útgefendur krónubréfa á gjalddaga, sem höfðu reitt sig á skiptasamninga við innlenda banka til að mæta þörf sinni fyrir krónur til að greiða eigendum bréfanna.
Loks kunni minnkandi áhættufælni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að leika hér hlutverk eins og raunin var á innlendum gjaldeyrismarkaði fyrir innleiðingu gjaldeyrishaftanna. Þróun flestra helstu mælikvarða á áhættufælni gefi til kynna að talsvert hafi dregið úr ótta fjárfesta við áhættu undanfarna mánuði.
Íslandsbanki segir, að minnkandi áhættufælni ætti að öðru jöfnu að draga úr óþreyju fjárfesta við að draga sig út úr áhættusömum eignum á borð við krónuna og haldi þessi þróun áfram geti það dregið verulega úr hættunni á mikilli og langvarandi veikingu krónu eftir afnám gjaldeyrishafta.