Seðlabanki Íslands mat á vormánuðum, fyrir fall bankanna, að heildartap fjármálaáfalls gæti samtals numið um 400-500 milljörðum króna. Þar af væri kostnaður við lausn fjármálaáfallsins á bilinu 179-230 milljarðar króna og hagvaxtartapið í kjölfarið hlypi á 217-256 milljörðum króna. Þetta kemur fram í stöðugleikaskýrslu bankans fyrir árið 2008.
Tapið var reiknað út eftir ábendingu fjármálakrísusérfræðingsins Andrew Gracie, sem Seðlabankinn réð í febrúar í fyrra. Bankinn vann með honum áætlanir um hvað þyrfti að gera nægðu bankarnir ekki að fjármagna sig og færu í þrot; Glitnir fyrir október 2008 og Kaupþing á fyrsta ársfjórðungi 2009.
Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir ljóst að áfallið hér á landi sé meira en bankinn reiknaði út. Hann miði sína útreikninga við reynslu þeirra ríkja sem hafi gengið í gegnum áföll á síðustu 35 árum. Áfall Íslendinga sé einfaldlega meira en þeirra.
„Reikna má með því að bæði kostnaður við lausn áfallsins og hagvaxtartapið í kjölfarið verði meiri en nefndur er í útreikningum Seðlabankans,“ segir hún. „Sé horft til kostnaðar við lausn á fjármálaáfallinu má sjá að bara eiginfjárframlagið inn í Seðlabankann var 270 milljarðar. Þessi eina fjárhæð er því komin yfir töluna sem bankinn reiknaði út.“ Þá eigi enn eftir að greiða kostnað vegna Icesave-deilunnar og leggja bönkunum til eiginfé svo eitthvað sé nefnt.
Katrín segir að Seðlabankanum hafi að sumu leyti átt að vera ljóst að tjónið yrði meira hér.
„Við vorum með samþjappaðan markað, aðeins þrjá banka, og vitað að gjaldeyrisforðinn dugði ekki fyrir þá þrjá, heldur hugsanlega aðeins einn, varla tvo og alls ekki þrjá,“ segir Katrín. „Í ljós kom hins vegar eftir á að tengslin á milli bankanna gerðu björgun nær ómögulega. Erlendis spáðu menn lítið í hvaða banki var hvað. Þetta voru bara íslensku bankarnir.“