Krefur Tchenguiz um 35 milljarða

Robert Tchenguiz.
Robert Tchenguiz.

Gamla Kaupþing hefur stefnt fyrirtækjum, sem tengjast kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz og krefst þess að þau greiði 180 milljónir punda, jafnvirði 35 milljarða króna. Þetta kemur fram í breska blaðinu Observer, sem kemur út á morgun.

Observer segir, að Kaupþing hafi höfðað málið eftir að fyrirtækin komu í veg fyrir að bankinn gæti leyst til sín söluandvirði hlutabréfa í bresku verslunarkeðjunni Somerfield.

Harðar deilur

Blaðið segir, að þessi málaferli sýni hvernig komið er í samskiptum Kaupþings og Tchenguiz. Á síðasta ári var Tchenguiz stærsti viðskiptavinur bankans og samsvöruðu lán til hans 46% innlána bankans. 

Tchenguiz hefur farið afar illa út úr fjármálakreppunni þar sem skuldsettar yfirtökur hans á fyrirtækjum reyndust óheppilega tímasettar. Því hafi fjárfestingarfélag Tchenguiz, TDT, neyðst til að afhenda Kaupþingi stóran hluta eigna sinna sl. haust vegna óvæntra veðkalla. Observer segir, að Kaupþing hafi selt þessar eignir á afar lágu verði og því hafi Tchenguiz reiðst.

Þess vegna hafi fjárhaldsmenn og dótturfélög TDT ákveðið að halda fjárfestingu í Somerfield utan við flókinn lánasamning eftir að Kaupþing hóf að innkalla lán til Tchenguiz í október. Observer segir, að nú krefjist Kaupþing bóta frá fyrirtækjum tengdum TDT. Hvorki Tchenguiz sjálfur né fjárfestingarfélag hans, R20, tengist þó þeirri kröfu. 

Flókin viðskiptavefur

Blaðið segir, að í kröfu Kaupþings, sem lögð var fyrir dómstól í Lundúnum, sé lýst flóknum vef lána, hlutabréfa, samninga um skiptingu hagnaðar og veða milli fyrirtækja skráðra á Bresku Jómfrúreyjum, Mön og Guernsey. Alls veitti Kaupþing lán, til fyrirtækja sem talin voru undir stjórn TDT, að upphæð 900 milljóna punda, jafnvirði 174 milljarða króna. 

Kaupþing höfðaði í febrúar mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur  Oscatello Investments, félags sem er skrá á Bresku Jómfrúreyjum en er í eigu TDT. Málið var innheimtumál vegna 645 milljóna punda skuldar. Hluturinn í Somerfield var fluttur úr Oscatello áður en það félag var sett í greiðslustöðvun á Bresku Jómfrúreyjum að kröfu Kaupþings.

Frétt Observer

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK