Íslandsbanki hefur leyst til sín 42% hlutafjár í Icelandair Group. Í tilkynningu frá bankanum segir að þetta hafi engin áhrif á daglega starfsemi félagsins. Stefnt sé að því að hluturinn verði seldur aftur í opnu og gagnsæju söluferli. Eftir þetta á bankinn samtals um 47% hlut í félaginu.
Íslandsbanki leysir bréfin til sín á genginu 4,5 fyrir hvern hlut sem er síðasta skráða viðskiptagengi með bréf í félaginu. Hlutabréfin sem Íslandsbanki hf. hefur í dag leyst til sín voru til tryggingar á lánum vegna hlutabréfakaupa í Icelandair Group.
Þá hefur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um, að Íslandsbanki fái skilyrta undanþágu frá skyldu til að gera yfirtökutilboð í Icelandair Group vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem bankinn sé í sem kröfuhafi gagnvart stórum hluthöfum félagsins.
Í tilkynningu Íslandsbanka segir: „Rekstur Icelandair Group hf. gekk betur á fyrsta ársfjórðungi 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir. Félagið hefur á síðustu mánuðum unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samvinnu við Íslandsbanka hf. Þeirri vinnu miðar vel og það er vilji bankans að halda áfram samstarfi við núverandi stjórnendur félagsins.
Hlutabréf félagsins áfram skráð í Nasdaq OMX kauphöll
Icelandair Group hf. er skráð í Nasdaq OMX kauphöllinni og eru hluthafar félagsins samtals um 850. Félagið samanstendur af 12 dótturfélögum sem starfa á sviði flug- og ferðaþjónustu hérlendis og erlendis og hjá þeim félögum starfa samtals um 4000 manns.
Það er ætlun Íslandsbanka að Icelandair Group hf. verði áfram skráð í Nasdaq OMX kauphöll. Eignarhlutur bankans verður seldur í opnu og gagnsæju söluferli eins fljótt og unnt er.
Fjármálaeftirlitið hefur veitt Íslandsbanka hf. tímabundna undanþágu frá yfirtökuskyldu en takmarkað atkvæðisrétt bankans við 30% virkra atkvæða.
Gert er ráð fyrir að boðað verði til hluthafafundar í félaginu á næstunni.“