Sveitarstjórn Kent sýslu í Englandi hefur sagt að hún muni líklega fá til baka um 90% af því fé, sem hún hafði lagt inn í íslenska banka. Við hrun íslensku bankanna átti Kent sýsla 18,35 milljónir punda (um 3,6 milljarða króna) í Heritable banka Landsbankans, 15 milljónir punda í Glitni og 17 milljónir í Landsbankanum sjálfum.
Hafa skiptastjórar Heritable sagt sveitarstjórninni að hún geti búist við því að fá 70-80% af innistæðum sínum þar til baka, en sérstök endurskoðunarskrifstofa hefur sagt Kent sýslu að í heild geti hún gert ráð fyrir því að fá um 90% af öllum innistæðum í íslenskum bönkum til baka.