Samkvæmt skýrslu breska endurskoðunarfyrirtækisins Chartered Institute of Public Finance & Accounting, CIPFA, gætu innistæður á innlánsreikningum íslensku bankanna í Bretlandi fengist endurgreiddar að miklu eða öllu leyti. Í skýrslunni er gerð tillaga að endurgreiðslu á innistæðunum í nokkrum áföngum, þeim síðustu í desember árið 2012. Þetta kom fram í breskum fjölmiðlum í gær og var einnig vitnað til á RÚV í hádeginu.
Telur CIPFA að innistæðueigendur Landsbankans geti fengið allt að 90% greidd til baka og gera má ráð fyrir að það eigi einnig við um Icesave-reikningana.
Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sem fer fyrir samninganefnd Íslands í viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, segir að skýrslan verði lesin vandlega og niðurstöður hennar tengist óneitanlega viðræðunum um Icesave. Að öðru leyti tjáir Svavar sig ekki um skýrsluna.
Um gang viðræðnanna segir Svavar að þær séu í fullum gangi. Reiknað sé með formlegum samningafundi núna í byrjun júní. „Þetta er í eðlilegum farvegi, málið er flókið og jafnast á við ein og hálf fjárlög,“ segir Svavar.
Hann segist ekki vera svartsýnn á niðurstöðu viðræðna og ekkert hafi komið upp til þessa sem geti spillt fyrir gangi mála. Bendir hann á að samningar hafi tekist við Þjóðverja vegna Kaupthing Edge.