Um 10 þúsund aðilar, sem áttu inneignir hjá Kaupþingi Singer & Friedlander bankanum á Mön, höfnuðu útborgunaráætlun sem lögð var fram af skilanefnd Kaupþings. Frá þessu greinir fréttavefur Daily Telegraph í dag.
Áætlunin um endurgreiðslu innstæða, sem kynnt var fyrir skemmstu, byggðist á því að 54 prósent af innstæðueigendum myndu fá allt sitt innan þriggja mánaða en 76 prósent væru búin að fá innstæður sínar greiddar að tveimur árum liðnum.
Hópur sem berst fyrir því að fá allt sitt greitt út úr bankanum hafði sett sig upp á móti endurgreiðsluáætluninni og barðist fyrir því, meðal annars á netinu, að innstæðueigendur greiddu atkvæði gegn áætluninni. Kosið var um hvort leiðin sem lögð var til af skilanefndinni yrði farin á þriðjudag. Meirihluti þeirra sem kusu þurfti að samþykkja áætlunina en niðurstaðan varð sú að 2/3 voru á móti áætluninni, samkvæmt fréttum Telegraph.