Eftir Björgvin Guðmundsson
„Vandinn er sá að bankarnir eru með of mikið af eignum í erlendri mynt sem bera lága vexti en of mikið af skuldbindingum í krónum sem bera háa vexti. Það er afar óþægileg staða að vera í og veldur taprekstri þeirra,“ segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Til að vinna upp þennan taprekstur hafa ríkisbankarnir, Nýja Kaupþing, Íslandsbanki og Landsbankinn, lækkað hratt hjá sér innlánsvexti. Það lækkar greiðslur sem bankarnir þurfa að greiða eigendum innlána. Það er í samræmi við tilmæli frá Seðlabanka Íslands.
Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá síðasta stýrivaxtafundi, sem birt var í gær, segir að nauðsynlegt sé að grípa til ýmissa aðgerða í því skyni að endurreisa lífvænlegt bankakerfi. „Til þess þarf að minnka kostnað, minnka umfang reksturs, draga úr gjaldeyrisáhættu og sjá til þess að lánskjör endurspegli raunverulegan fjármögnunarkostnað bankanna. Ég get í sjálfu sér tekið undir þetta allt saman,“ segir Gylfi Magnússon. „Það hjálpar mjög mikið ef innlendir vextir almennt nálgast erlenda vexti. Hluti af vandanum var fólginn í því að vextir í krónum voru svo miklu hærri en erlendir vextir og þar með vextir af útlánum í erlendri mynt sem bankarnir voru með.“