Fram kom í Kastljósviðtali við Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra í febrúar, að hann hefði skrifað bréf til efnahagsbrotalögreglu ríkislögreglustjóra í desember sem urðu til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið.
Áður hafði komið fram að umrætt bréf hafi verið nafnlaus ábending til lögreglunnar. Davíð sagði í viðtalinu, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.
Fram kom í viðtali mbl.is við Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrota, á þessum tíma að efnahagsbrotadeildin hefði sent málið til Fjármálaeftirlitsins til rannsóknar. Fjármálaeftirlitið sendi málið til embættis sérstaks saksóknara í mars og í þessari viku voru gerðar húsleitir á 12 stöðum vegna rannsóknar á málinu.
Um er að ræða rannsókn á kaupum félagsins Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþingi banka í september í fyrra. Félagið Q Iceland Finance er í eigu Ólafs Ólafssonar og sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani í Katar.
Kaupþing veitti Ólafi, sem á þeim tíma var annar stærsti hluthafi bankans, lán fyrir helmingi kaupverðsins í gegnum félag hans sem skráð er á Jómfrúreyjum, tryggt með veði í bréfunum sjálfum og án persónulegrar ábyrgðar hans sjálfs.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði við mbl.is í gær að grunur leiki á að umrædd viðskipti hafi verið til þess fallin að veita rangar og villandi upplýsingar til markaðarins um stöðu Kaupþings, en undir ákvæði um markaðsmisnotkun falla m.a. sýndarviðskipti.