Búist er við að fleiri heldur en færri muni fá stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks saksóknara á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutum í Kaupþingi. Er þetta gert til þess að girða ekki fyrir hugsanlegar ákærur á síðari stigum rannsóknarinnar og einnig til þess að tryggja að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái notið réttlátrar málsmeðferðar.
Embætti sérstaks saksóknara rannsakar núna hvort kaup Q Iceland Finance, sem er í eigu sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani, á fimm prósenta hlut í Kaupþingi í september varði hugsanlega við ákvæði um markaðsmisnotkun í lögum um verðbréfaviðskipti eða ákvæði í auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Meðal annars er embættið að rannsaka hvort með viðskiptunum hafi verið send villandi og röng skilaboð til markaðarins sem voru til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun hlutabréfa í bankanum rétt fyrir bankahrun.
Nokkrir hafa þegar verið yfirheyrðir í málinu og hafa stöðu grunaðra. Fyrrverandi stjórnendur hjá Kaupþingi sem Morgunblaðið hefur náð tali af segjast ekki hafa áhyggjur af þessu máli, engin lög hafi verið brotin.
„Ef það er einhver vafi er frekar gefin staða sakbornings svo viðkomandi hafi lögmann sér til fulltingis frá upphafi,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Hann segir að ef í ljós kæmi að vitni hefði saknæma aðild að málinu þyrfti að yfirheyra það að nýju með breytta réttarstöðu.
„Það er skynsamlegt hjá saksóknaranum að taka sem flesta sem grunaða strax í byrjun til að skemma ekki hugsanlegan málatilbúnað gegn þeim,“ segir fyrrverandi lögfræðingur hjá Kaupþingi sem Morgunblaðið ræddi við.
Bent hefur verið á að saksóknari vilji síður falla í þá gryfju að taka skýrslur af mönnum þar sem þeim er gefið til kynna að þeir hafi stöðu vitnis og þurfa síðan að gefa út ákæru á Þau mistök hafi verið gerð við rannsókn á olíusamráðsmálinu að fyrrverandi forstjórar voru kallaðir til sem vitni og voru síðan ákærðir, sem þótti mjög óheppilegt.