Skoski frumkvöðullinn Jim McColl stendur frammi fyrir miklum breytingum á eignarhaldi tveggja félaga sem hann á stóran hlut í. Félögin, Interbulk og Clyde Process Solutions, hafa orðið fyrir barðinu á íslenska hruninu líkt og mörg önnur félög á Bretlandi. Fjárfestingafélagið Atorka Group á 40% hlut í Interbulk og 24% hlut í Clyde Process. Atorka hefur óskað eftir aðstoð PriceWaterhouseCoopers við endurskipulagningu rekstrar fjárfestingafélagsins. Greint er frá þessu í breska blaðinu Sunday Herald.
Þar kemur fram að í kjölfar þess að Atorka hafi ekki getað staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar í síðasta mánuði hafi félagið leitað til PWC. Helst sé þó horft til stærstu fjárfestinga félagsins, þar á meðal í Promens. Það félag keypti fyrirtækið Bonar Plastics á 23,5 milljónir punda af Low & Bonar fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir erfiða stöðu breskra fyrirtækja sem Atorka á hlut í þá hefur félagið hug á að reyna að eiga hlut sinn í þeim áfram.