Exista hefur krafist lögbanns á millifærslu upp á þrettán milljarða króna frá Nýja Kaupþingi yfir í gamla Kaupþing. Exista viðurkennir ekki gömlu ríkisbankana sem kröfuhafa félagsins. Lögbannskrafan verður líklega lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur síðar í dag.
Exista viðurkennir ekki að gömlu bankarnir séu raunverulegir kröfuhafar félagsins þar sem skuldir félagsins við bankana eru byggðar á afleiðusamningum og aðilar eru ekki sammála um með hvaða hætti eigi að gera eigi þessa samninga upp. Exista vill uppgjör á gengi Seðlabanka Evrópu, en ekki skráðu gengi Seðlabanka Íslands. Þetta kom fram í máli Lýðs Guðmundssonar, stjórnarformanns Exista, á hluthafafundi félagsins sem lauk rétt í þessu.
Afar fámennt var á fundinum en aðeins tuttugu hluthafar mættu. Fram kom á fundinum að Exista hefði náð samkomulagi við 37 stærstu kröfuhafa félagsins, en um er að ræða erlend fjármálafyrirtæki. Skuldir Exista við erlendu fyrirtækin nema um einum milljarði evra, eða tæpum 180 milljörðum króna. Á grundvelli þessa samkomulags mun Exista greiða skuldina á tólf árum.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag vilja stærstu innlendu kröfuhafar Exista setja stjórnendur félagsins til hliðar og taka sjálfir yfir reksturinn. Í máli Lýðs í morgun kom fram að erfiðlega hefði gengið að ná samkomulagi við innlenda kröfuhafa ólíkt því sem gilti um erlend fjármálafyrirtæki.
Exista á meðal annars Vátryggingafélag Íslands, Símann, Lífís, Lýsingu og hlut í Bakkavör. Forstjórar félagsins eru Erlendur Hjaltason iog Sigurður Valtýsson.