Fjármálaeftirlitið rannsakar nú hvort umboð sem Ágúst Ármann notaði til að greiða atkvæði á aðalfundi Byrs um miðjan mánuðinn kunni að vera ólögmætt, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Sem kunnugt er greiddi Ágúst, faðir Magnúsar Ármann fyrrverandi stjórnarmanns í Byr sparisjóði, atkvæði á aðalfundinum í umboði bresku kaupsýslukonunnar og fatahönnuðarins Karenar Millen.
Á aðalfundinum tókust tvær fylkingar á og Ágúst greiddi B-lista atkvæði en sá listi bar sigur úr býtum með 48,73% atkvæða en A-listi hlaut 46,13% atkvæða.
„[É]g og fjölskylda mín höfum um árabil átt stofnfjárhluti í Byr og forvera hans. Við báðum Ágúst Ármann að mæta fyrir okkar hönd á aðalfund Byrs og greiða atkvæði fyrir okkar hönd. Bréfin hafa verið í vörslu Kaupþings í Lúxemborg og veitti bankinn því Ágústi umboð til að fara með atkvæðisrétt skv. fyrirmælum okkar," sagði Millen í yfirlýsingu í kjölfar þess að lögmæti umboðsins var dregið í efa.
Eins og fram kom í yfirlýsingu Millen voru bréf hennar í vörslu Kaupþings, en um er að ræða svokallaðan safnreikning. Samkvæmt 11. gr. reglna um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi fylgir safnreikningi ekki atkvæðisréttur á hluthafafundum.
Þetta er meðal þess sem Fjármálaeftirlitið hefur nú til athugunar, þ.e hvort þessum bréfum hafi fylgt atkvæðisréttur ef þau voru í reynd í eigu Karenar Millen og á safnreikningi hjá Kaupþing í Lúxemborg.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu.