Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,13% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði hún um 1,44% frá apríl. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 15,5%.
Í apríl mældist tólf mánaða verðbólga 11,9% þannig að lækkun verðbólgunnar nú er mun hægari heldur en mánuðina á undan. Í apríl fór tólf mánaða verðbólga úr 15,2% í 11,9%. Í febrúar mældist verðbólgan 17,6% en í janúar 18,6%.
Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,98% sem jafngildir 4,0% verðbólgu á ári (10,2% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Eldsneytisverð hækkaði um 4,9% og á flugfargjöldum um 22,6%
Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 4,9% (vísitöluáhrif 0,22%) og verð á bílum um 4,9% (0,17%).
Kostnaður
vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,0% (0,14%). Áhrif af hækkun
markaðsverðs voru 0,18% en á móti komu áhrif af lækkun raunvaxta um
-0,04%. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,8% (0,11%). Verð á
flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,6% (0,17%), að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.
Verðbólgan hefur hjaðnað hratt að undanförnu en hún stóð í 18,6% í upphafi árs. Hækkun vísitölu neysluverðs nú er mun meiri heldur en spár greiningaraðila hljóðaði upp á. Verðbólguspá IFS greiningar fyrir maímánuð hljóðaði upp á 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef sú spá hefði gengið eftir hefði verðbólgan mælst 10,7% í stað 11,6%. Greining Íslandsbanka spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,4% í maí.