Ekkert upplýst um Wyman-skýrslur

Guðlaugur Þór segir erfitt að ræða það sem ekki má …
Guðlaugur Þór segir erfitt að ræða það sem ekki má upplýsa um. Ómar Óskarsson

„Við vorum einfaldlega upplýst um að það mætti ekki ræða þessar skýrslur. Ég hef aldrei farið á fund áður þar sem dagskrárliðurinn er eitthvað sem ekki er kynnt og ekki má ræða, en einhvern tímann er víst allt fyrst," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður sem situr í viðskiptanefnd þingsins.

Á fundi nefndarinnar í morgun átti að fjalla um skýrslur sem fjármálafyrirtækið Oliver Wyman hefur unnið um endurmat á skuldum og eignum nýju bankanna þriggja og almennt stöðuna í endurreisn bankanna.

Guðlaugur Þór segir að þingmenn hafi beðið um að fá að vita hvaða upplýsingar úr skýrslunum þeir gætu beðið um, en þá hafi komið alveg skýrt fram að þeir myndu ekki fá að sjá neitt sem í þeim er. „Það var mjög erfitt að ræða þann dagskrárlið fundarins sem engar upplýsingar fengust um."

Embættismenn frá Fjármálaeftirlitinu (FME), fjármálaráðuneytinu og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar mættu á fundinn til að kynna stöðuna og ofangreindar hömlur á upplýsingagjöf til þingmanna.

Oliver Wyman skilaði samhæfðu endurmati á skuldum og eignum Nýja Landsbanka, Nýja Kaupþings og Íslandsbanka til Fjármálaeftirlitsins (FME) í lok apríl síðastliðins. Eini hluti vinnu fyrirtækisins sem hefur lekið út er minnisblað frá því í janúar. Samkvæmt því voru um 40 prósent af eignum nýju bankanna þriggja flokkaðar sem slæm lán. Lán fyrirtækja eru flokkuð sem slæm ef þau hafa verið lengur en 90 daga í vanskilum. Heimildir Morgunblaðsins herma að staðan hafi versnað síðan þá og mun fleiri lán flokkist sem slæm í viku hverri. Einungis þriðjungur lánanna taldist góður í janúar.

Þegar FME skildi á milli gömlu og nýju bankanna í október voru erlendar eignir þeirra og útlán flokkuð í verulegri tapáhættu skilin eftir í þeim gömlu. Í nóvember var síðan gefin út bráðabirgðastofnefnahagsreikningur fyrir bankanna þrjá og samkvæmt honum myndi þurfa 385 milljarða króna eiginfjárframlag frá ríkinu til að þeir gætu verið starfshæfir. Samkvæmt minnisblaði Wyman frá því í janúar hafði enn fleiri eignir verið færðar frá nýju bönkunum yfir í þá gömlu vegna þess að þær voru taldar til „útlána í verulegri tapáhættu." Því er talið afar líklegt að umfang nýju bankanna verði mun minna en upphaflega var ætlað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK