Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Stoðir/FL Group, Eglu, Nýsi, Landic Property og Existu opinberlega og beita þau févíti vegna brota á reglum fyrir útgefendur fjármálagjörninga. Févítin eru allt að 1,5 milljónum króna.
Févítin eru vegna þess að félögin birtu ekki ársreikninga sína opinberlega fyrir árin 2008 innan þeirra tímamarka sem þeim bar að gera það. Umrædd félög eru með skuldabréf skráð í Kauphöllinni og eru öll í gjaldþrotameðferð, greiðslustöðvun eða fjárhagslegri endurskipulagningu.
Stoðir/FL Group, Exista, Landic Property og Nýsir þurfa öll að greiða 1,5 milljónir króna í févíti auk þess að þau eru áminnt opinberlega. Upphæðin er sú hæsta sem Kauphöllin beitir í svona málum. Félögin ákváðu öll að nýta sér undanþáguheimild í lögum verðbréfaviðskipti til að skila ekki ársreikningum sínum, en það áttu þau að gera í síðasta lagi fyrir apríllok samkvæmt samningi þeirra við Kauphöllina. Félögin eru talin hafa gerst brotleg við fjögur ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni með athæfi sínu.
Fleiri félög mögulega brotleg
Eglu var gert að greiða eina milljón króna í févíti auk þess sem félagið var áminnt opinberlega. Brot félagsins snýr bæði að því að það birti ekki ársreikning sinn og að því að forsvarsmenn Eglu veittu fjárhagslegar upplýsingar á kröfuhafafundi sem ekki höfðu verði birtar opinberlega. Vegna þessa telur Kauphöllin að félagið hafi gerst brotlegt við alls þrjú ákvæði reglna hennar fyrir útgefendur fjármálagerninga.
Alls nýttu þrettán félög sér undanþáguheimild til að skila ekki ársreikningum. Auk ofangreindra félaga eru það Íslensk afþreying (365 hf.), Atorka, Kögun, Landsafl, Teymi, Milestone, Moderna Finance og Askar Capital. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru mál þessara félaga enn í vinnslu og mun Kauphöllin ljúka afgreiðslu þeirra á næstu vikum.
Gæti verið lögbrot
Kauphöllin getur einungis beitt viðurlögum á grundvelli samnings útgefendanna við hana. Heimildir Morgunblaðsins herma að hömlur á birtingu innherjaupplýsinga á borð við þær sem felast í ársreikningi geti einnig verið brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Þá ber Kauphöllinni að vísa málunum áfram til Fjármálaeftirlitsins (FME), sem mun þá kanna hvort að lögbrot hafi átt sér stað.
Morgunblaðið beindi fyrirspurn til FME um málið þann 29. apríl síðastliðinn. Í svari þess segir að þótt útgefandi falli undir undanþágu laganna um birtingu ársreiknings þá beri honum samt sem áður „skylda til að gera opinberar allar upplýsingar sem gera haft áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna, þ.e. að birta allar verðmótandi upplýsingar. Það varðar viðurlögum að birta ekki slíkar upplýsingar opinberlega. Fjármálaeftirlitið fylgist með hvort slíkar upplýsingar séu birtar og beitir þeim úrræðum sem það hefur lögum samkvæmt."