Stærstu innlendu kröfuhafar Exista, Nýja Kaupþing og skilanefndir gömlu bankanna, unnu í gær að því að gjaldfella kröfur sínar á félagið. Verið var að leggja lokahönd á bréf þess efnis sem senda átti til stjórnenda Exista samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Byrjaði allt á öðru bréfi
Nýja Kaupþing og skilanefndir gömlu bankanna þriggja sendu stjórnendum Exista bréf í síðustu viku, en þeir eru stærstu innlendu kröfuhafar Exista. Þar fóru þeir fram á að taka yfir rekstur félagsins og að helstu stjórnendur þess myndu víkja. Þar var sérstaklega átt við forstjórana tvo, Erlend Hjaltason og Sigurð Valtýsson, og stjórnarformanninn Lýð Guðmundsson.
Þeir kröfuhafar sem sendu bréfið og þrír stórir lífeyrissjóðir, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, eru stærstu innlendu kröfuhafar Exista. Þeir hafa myndað óformlegt kröfuhafaráð frá síðasta hausti. Lífeyrissjóðirnir neituðu að skrifa undir bréfið og taka þátt í aðgerðum bankanna. Þeir vildu frekar breyta skuldum Exista við þá í skuldabréf með langan líftíma. Með þeim hætti þurfa þeir ekki að afskrifa skuldina strax.
Treysta ekki stjórnendum
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins treysta kröfuhafarnir sem sendu bréfið ekki núverandi stjórnendum Exista til að upplýsa um raunverulega stöðu félagsins. Þeir segjast ítrekað hafa beðið um gögn, meðal annars varðandi niðurfellingar á ábyrgðum lána til starfsmanna Exista, en stjórnendur Exista hafi neitað að afhenda þau. Exista var gefinn frestur fram að miðnætti á mánudag til að bregðast við bréfinu. Stjórnendum félagsins var gert það ljóst að ef þeir yrðu ekki við óskunum myndu skuldir þeirra verða gjaldfelldar.
Stjórnendur Exista sendu svarbréf á mánudag þar sem þeir höfnuðu óskum kröfuhafanna. Þeir segja afstöðu bankanna koma á óvart, enda hafi þeir allir annaðhvort haft vitneskju um, eða jafnvel verið beinir þátttakendur í endurskipulagningu Exista. Þeir hafna þeirri staðhæfingu bankanna að kröfuhafar muni þurfa að afskrifa stóran hluta krafna sinna og því sé eðlilegt að þeir taki yfir Exista. Þvert á móti segja stjórnendurnir að heildarendurheimt kröfuhafa í reiðufé fram til ársins 2020 verði á bilinu 75 til 96 prósent af heildarkröfum þeirra. Auk þess muni þeir fá hlutafé.
Stjórnendur Exista neita því að hluti af skilanefndum gömlu bankanna eigi kröfur á félagið og geti því ekki gjaldfellt kröfur á félagið. Það rökstyðja þeir með því að kröfurnar byggist á afleiðusamningum milli Exista og gömlu bankanna sem þeir telji að gera eigi upp á gengi Seðlabanka Evrópu. Ef það yrði gert þá gæti Exista skuldajafnað við skilanefndirnar og þar með gert upp við þær. Þessu eru skilanefndirnar ósammála og úr þessu máli verður líklega ekki skorið nema fyrir dómstólum. Enginn vafi er þó á því að Nýja Kaupþing á kröfur á Exista. Þær nema yfir 100 milljörðum króna.
Óskað eftir lögbanni
Sama dag og Exista átti að svara fyrra bréfi kröfuhafanna lagði félagið fram beiðni um lögbann á að gamla Kaupþing geti leyst til sín þrettán milljarða króna innstæðu Exista hjá Nýja Kaupþingi. Gamli bankinn á handveð í innstæðunum og vill ganga að því veði. Exista-menn vilja hins vegar meina að samkvæmt kyrrstöðusamningi við Nýja Kaupþing ættu innstæðurnar að vera lausar til útborgunar.
Í nóvember síðastliðnum skrifaði Nýja Kaupþing undir kyrrstöðusamning við Exista. Í honum fólst að bankinn myndi ekki hefja innheimtu skulda á samningstímanum og ef Exista næði samkomulagi við aðra kröfuhafa sína myndi bankinn afskrifa verulegan hluta af skuldum félagsins við sig. Nýja Kaupþing vill meina að kyrrstöðusamningurinn hafi fallið úr gildi 30. mars. Lýður sagði hins vegar í samtali við Morgunblaðið að það væri alrangt. Hluti samkomulagsins hefði fallið úr gildi í lok mars en sá hluti sem snýr að því að Kaupþing sæki kröfur á Exista eigi að gilda til ársloka 2009.
Skemmdarverk og ofbeldisaðgerð
„ÞESSI aðgerð er ekkert annað en skemmdarverk og skemmir fyrir kröfuhöfunum. Hún mun færa þeim minni fjármuni,“ segir Lýður Guðmundsson, starfandi stjórnarformaður Exista, um kröfur gömlu bankanna þriggja og Nýja Kaupþings um að taka yfir félagið og víkja stjórnendum þess frá, ella verði lán til Exista gjaldfelld.
Lýður er, ásamt Ágústi bróður sínum, aðaleigandi Exista. Morgunblaðið hitti þá bræður eftir hluthafafund Existu á þriðjudag.
Snýst um meira um persónur
Lýður segist ekki geta séð að skilanefndirnar séu að vinna fyrir kröfuhafa gömlu bankanna líkt og þær eiga að gera. „Þetta virðist meira snúast um persónur og leikendur heldur en viðskiptalegar forsendur. Það er einhver krafa í þjóðfélaginu um að losna við ákveðna menn.“
Ágúst kallar atburði síðustu daga ofbeldisaðgerðir af hálfu gömlu bankanna.
Hann telur Nýja Kaupþing hafa látið undan þrýstingi frá fulltrúum skilanefnda gömlu bankanna þegar bankinn ákvað að taka þátt í tilraun til yfirtöku á Exista. „Það sem hefur breyst er framferði skilanefndar Gamla Kaupþings. Þetta sést ekki einungis á meðhöndlun á okkur heldur víðar. Þeir eru búnir að neyða Nýja Kaupþing til þess að breyta afstöðu sinni til máls sem málefnalega hefði margborgað sig fyrir bankann, og aðra kröfuhafa félagsins, að klára.“
Í samkeppni við ríkið
Lýður tekur í sama streng. „Þetta hefur ágerst eftir því sem á hefur liðið [innsk. blaðam.: frá bankahruni]. Helstu atvinnufyrirtæki landsmanna hafa komist í ríkiseigu. Við erum komnir í samkeppni við ríkið nánast allstaðar, hvort sem það er í eignaleigunni, tryggingabransanum eða í símabransanum. Aðgerðir skilanefndanna miða greinilega ekki að því að ná sem mestum verðmætum til baka. Þær ganga út á græðgi ríkisins, eða ríkisvæðingu.“
Upplýsingar gefnar eftir hentugleikum
Það skýtur kannski dálítið skökku við, en að einhverju leyti eru kröfuhafar skilanefndanna, sem vilja gjaldfella lán Exista, þeir sömu og samþykktu endurskipulagningu félagsins. Þar sem skilanefndirnar eiga að starfa í þágu kröfuhafa sinna er erfitt að sjá hvað veldur þessu misræmi.
Viðmælendur Morgunblaðsins segja þó að skilanefndirnar og Nýja Kaupþing telji Exista-menn hafa leikið tveimur skjöldum í samskiptum sínum við kröfuhafa félagsins og veitt upplýsingar um stöðu þess eftir eigin hentugleikum. Þeir halda því til dæmis fram að Exista hafi sagt erlendum kröfuhöfum sínum að þeir væru búnir að semja um allar sínar skuldir á Íslandi þegar samkomulagið var gert við þá í apríl. Það sé hins vegar alls ekki rétt.
Þá telja innlendu kröfuhafarnir að heildarskuldir Exista nemi um tveimur milljörðum evra, eða um 355 milljörðum króna, og vitna í bráðabirgðaefnahagsreikning félagsins frá 31. desember 2008 því til stuðnings. Eignir séu hins vegar einungis 100 milljónir evra, eða um fimm prósent af skuldunum.
Stjórnendur Exista hafna báðum þessum fullyrðingum, segja eignirnar meira virði og að skuldirnar séu um einn milljarður evra. Skekkjuna á skuldastöðunni má að einhverju leyti rekja til mismunandi túlkunar á uppgjöri á afleiðusamningum. Exista-menn hafna því einnig alfarið að þeir séu að leyna einhverjum upplýsingum. Þeir segja öll gögn hafa legið fyrir í gagnaherbergi, sem sé aðgengilegt kröfuhöfum, frá því í janúar. Skilanefndirnar hafi reyndar beðið þá um að rjúfa bankaleynd, en því hafi þeir hafnað þar til úr því fengist skorið hvort skilanefndirnar væru raunverulegir kröfuhafar.
Erlendu kröfuhafarnir hafa samþykkt en ekki skrifað undir
Í PROJECT Geysir, trúnaðarkynningu um endurskipulagningu Exista sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er tiltekið hvernig rekstrarfélög Exista; VÍS, Lífís, Lýsing, Bakkavör og Síminn ætli að greiða kröfuhöfum sínum til baka skuld móðurfélagsins á næstu tólf árum, eða til ársins 2020. Þær endurgreiðslur eiga fyrst og fremst að vera í formi arðgreiðslna og skattalegs taps sem nýtist til tekjufærslu. Að mati stjórnenda Exista átti þessi áætlun að tryggja kröfuhöfum á bilinu 75 til 96 prósenta endurheimt á kröfum sínum í reiðufé auk hlutafjár. Þá gerði áætlunin ráð fyrir því að rekstrarkostnaður Exista á þessum tólf árum yrði um ellefu milljarðar króna. Hluti innlendu kröfuhafanna gerði athugasemdir við þennan háa rekstrarkostnað og vildi skera hann niður um allt að 90 prósent. Hjá Exista fengust þær upplýsingar að þessar tölur ættu ekki lengur við og að endurskoðaður rekstrarkostnaður yrði lægri.
Erlendu bankarnir áttu að koma í gær
Erlendu kröfuhafarnir samþykktu áætlun Exista í byrjun apríl en hafa þó ekki skrifað undir samkomulag þess efnis. Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, sagði á hluthafafundi félagsins á þriðjudag að kröfuhafar þess myndu væntanlega fá sæti í stjórn þess áður en langt um liði. Um er að ræða 37 alþjóðlega banka sem eiga hlut í sambankalánum til félagsins. Þetta eru meðal annars þýsku bankarisarnir Bayerische Landesbank og Deutsche Bank, sem hafa um árabil verið miklir „Íslandsvinir“ í þeim skilningi að þeir hafa lánað gríðarlegar fjárhæðir inn í íslenskt viðskiptalíf. Erlendir kröfuhafar Exista voru væntanlegir til landsins í gær til að funda með aðilum út af þeirri stöðu sem upp er komin. Innlendu bankarnir telja óraunhæft að hægt sé að greiða arð úr dótturfélögum Exista upp í móðurfélagið á næstu árum. Þótt þau standi flest ágætlega séu þau sjálf töluvert skuldsett og þurfi að greiða niður þær skuldir áður en þau geti skilað arði upp í móðurfélagið.
Í hnotskurn
» Exista er móðurfélag VÍS, Lífís, Lýsingar, Bakkavarar og Skipta (móðurfélags Símans).
» Það var stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun.
» Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir eiga 89 prósent í félaginu.
» Forstjórar Exista eru Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson.