Stífar viðræður standa nú yfir milli forsvarsmanna Exista og innlendra og erlendra kröfuhafa um hvernig hátta eigi framtíðarskipulagi félagsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er verið að fara yfir ýmsa möguleika í stöðunni og líklega mun niðurstaða ekki liggja fyrir fyrr en í næstu viku. Þó sé ekki loku fyrir skotið að hlutirnir breytist með skömmum fyrirvara.
Hluti innlendra kröfuhafa Exista, skilanefndir gömlu bankanna og Nýja Kaupþing, hótaði að gjaldfella kröfur á félagið með bréfi fyrir helgi ef stjórnendur þess myndu ekki víkja og kröfuhafar fá að taka yfir rekstur félagsins. Exista-mönnum var gefið fram að miðnætti á mánudag til að svara og neituðu þeir að verða við kröfum bankanna. Í kjölfarið fylgdi hörð gagnrýni Exista-manna á störf skilanefndanna.
Heimildir Morgunblaðsins herma að unnið hafi verið að því í gær af lögfræðingum kröfuhafanna að útbúa bréf til að tilkynna stjórnendum Exista um að kröfur á hendur félaginu myndu verða gjaldfelldar.
Nú eru allir aðilar hins vegar að ræðast við og er fundað stíft. Því er ljóst að ekki hefur verið staðið við fyrri hótanir um gjaldfellingar enn sem komið er. Meðal annars funduðu Exista-menn með hluta af kröfuhöfum sínum í morgun. Afstaða deiluaðila til hvors annars hefur einnig mildast og vonast er til að hægt verði að finna farsæla lausn á málefnum Exista á allra næstu dögum, jafnvel strax í byrjun næstu viku.