Fyrsta endurskoðun lánasamnings Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) er langt komin, en aðaláhersla hefur verið lögð á að klára endurfjármögnun bankakerfisins og að jafna stöðu ríkissjóðs. Kom þetta fram á fréttamannafundi með fulltrúum IMF í morgun.
Mark Flanagan, sem stýrir þeirri nefnd Íslandsnefnd IMF, segir í tilkynningu að þessum aðgerðum ætti að vera hægt að ljúka fyrir júnílok, en þær hafa tafist töluvert. Það þýðir að endurskoðun áætlunarinnar verður lögð fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í júlí.
Flanagan segir að halli á ríkissjóði sé nú mjög mikill og hafi það áhrif til mildunar á áhrifum kreppunnar. Ekki sé þó hægt að viðhalda svo mikilum hallarekstri til lengri tíma og mikilvægt sé að jafna rekstur ríkissjóðs.
Leggur hann áherslu á að mat IMF sé að Ísland geti staðið undir skuldabyrði hins opinbera, en hann hafi oft verið spurður að því í heimsókninni nú.
Telur IMF að þróun efnahagsmála hér á landi sé í grófum dráttum í takt við spá sjóðsins. Botninum ætti að vera náð á seinni hluta þessa árs og batinn ætti að hefjast árið 2010.
Er sjóðurinn enn á þeirri skoðun að gjaldeyrishöft séu ennþá nauðsynleg, en hugsanlega sé hægt að létta á þeim á seinni hluta þessa árs. Það verði hins vegar að gerast smátt og smátt. Krónan sé ennþá viðkvæm og því sé þörf á styrkri peningastjórn hér á landi.
Viljayfirlýsing send til IMF
Íslensk stjórnvöld munu á næstu vikum senda framkvæmdastjórn sjóðsins uppfærða viljayfirlýsingu, líkt og gert er í lok hverrar endurskoðunar. Yfirlýsingin lýsir helstu verkefnum og áætlunum stjórnvalda næstu mánuði. Hún byggir á þeim grunni sem lagður var í upphafi samstarfsins í nóvember.
Búist er við að framkvæmdastjórn sjóðsins taki afstöðu til yfirlýsingarinnar í júlímánuði. Í kjölfar þess mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veita annan hluta láns hans til styrkingar gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.
Fyrirhuguð heildarlánveiting sjóðsins til Íslands nemur 2,1 milljarði Bandaríkjadala. Þegar hafa verið greiddar um 830 milljónir dala inn á reikning Seðlabanka Íslands hjá seðlabanka Bandaríkjanna. Að lokinni samþykkt stjórnar sjóðsins verður viljayfirlýsingin ásamt greinargerð sendinefndarinnar gerð opinber.