Gjaldeyriseftirlitið, ný deild hjá Seðlabankanum, tekur til starfa eftir helgi til þess að auka eftirlit með gjaldeyrishöftum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Ingibjörg Guðbjartsdóttir lögfræðingur mun leiða þennan þriggja manna starfshóp. Hún starfaði áður hjá Straumi fjárfestingarbanka.
Gjaldeyriseftirlitið mun fylgjast með krónueignum erlendra aðila og skilaskyldu innlendra aðila. Hafa ber í huga að gjaldeyrismiðlun er leyfisskyld starfsemi frá Fjármálaeftirlitinu.
Slíkt eftirlit er þó ekki nýlunda hjá Seðlabankanum. Hann hefur haft eftirlit með þessum þáttum og vísað nokkrum málum til Fjármálaeftirlitsins, sem bíða niðurstöðu. Morgunblaðið fékk ekki upplýsingar um hve mörg mál er að ræða frá Seðlabankum.
Gjaldeyrishöftum var komið á í nóvember í kjölfar bankahrunsins síðastliðið haust til þess að stemma stigu við útflæði erlends gjaldeyris með það fyrir augum að styrkja krónuna, en gengi krónu féll við bankahrunið. Höftin voru aukin í apríl því gengi krónu hafði sigið, þrátt fyrir gjaldeyrishöft.
Talsverður munur hefur verið á gengi krónu hér á landi og erlendis. Hann hefur þó minnkað. Það er því hægt að hagnast á mismuninum. Samkvæmt upplýsingum Reuters kostar evran 210 krónur en 178 samkvæmt Seðlabankanum.
Fyrrverandi bankastarfsmenn hér á landi hafa séð tækifæri í því að para saman fólk sem vill selja krónur og fá gjaldeyri í staðinn, til dæmis evrur. Þetta geta verið erlendir aðilar sem vilja losna við krónurnar og Íslendingar sem eiga gjaldeyri og þurfa krónur. Þá er betra að kaupa ódýrar krónur erlendis en skipta þeim á Íslandi.