Bil milli gengis krónu innanlands og á svonefndum aflandsmarkaði hefur aukist síðustu daga. Á sama tíma og króna hefur styrkst um 3,4% gagnvart evru á innlendum millibankamarkaði undanfarna viku hefur hún veikst um 4,7% á aflandsmarkaði.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, og vitnað í gjaldeyriskerfi Reuters, að evran kosti nú rúmar 172 krónur á fyrrnefnda markaðinum en 215 krónur á þeim síðarnefnda.
Íslandsbanki segir líklegt, að þróunin endurspegli þá skoðun, bæði hérlendis og erlendis, að hert hafi verið á gjaldeyrishöftunum og að lengra sé í að þeim verði aflétt en áður var talið.