Bregðist við breyttum veruleika

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair.
Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair.

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, segir íslenskt atvinnulíf þurfa að horfast í augu við breyttan veruleika og reyna að nýta þau tækifæri sem í honum felst. Þau fyrirtæki sem eru með tekjur í erlendri mynt, en kostnað að verulegu leyti í krónum, geti nýtt tækifæri sín betur. „Fyrirtæki, og stjórnvöld að því leyti sem það snýr að þeim, verða að bregðast hratt við gengisfalli krónunnar svo að íslenskt efnahagslíf upplifi ekki aðeins neikvæðar hliðar þess heldur líka jákvæðar. Athyglin sem hefur verið á Íslandi erlendis síðan bankakerfið hrundi er líklega mesti „fókus“ sem landið hefur fengið á sig áratugum saman. Kannanir hafa sýnt að ímynd landsins hefur ekki skaðast við þetta. Þess vegna þarf að nýta þessa athygli betur. Kynna landið fyrir ferðamönnum og eftir atvikum erlendum fjárfestum og fyrirtækjum. Þó við séum enn að vinna okkur út úr bráðavanda þá þarf stefnuföst vinna við kynningu á þeim tækifærum sem breyttar aðstæður fela í sér að hefjast strax. Við hjá Icelandair erum mitt í þessari vinnu, á ýmsum stigum innan félagsins,“ segir Birkir.

Gengið á ýmsu

Það hefur mætt mikið á Birki Hólm síðan hann tók við starfi forstjóra hjá flugfélaginu 1. maí í fyrra. Til móðurfélagsins, Icelandair Group, hafði þá nýlega verið ráðinn nýr forstjóri, Björgólfur Jóhannsson, sem fljótlega boðaði umfangsmiklar breytingar á rekstrinum. „Það er óhætt að segja að það hafi gengið á ýmsu, sérstaklega hvað varðar ytri aðstæður, allt frá því ég tók við starfinu. Sé litið yfir farinn veg þá tel ég að þær umfangsmiklu hagræðingaraðgerðir sem við réðumst fljótt í hafi verið nauðsynlegar og skilað miklum árangri,“ segir Birkir.

Um mitt ár í fyrra stóð olíuverð í 147 dollurum á fati, sem er hæsta verð sem olía hefur farið í á markaði nokkru sinni. Til samanburðar var verðið á fatinu um 25 dollarar árið 2003. Það hefur að undanförnu verið á bilinu 60 til 70 dollarar. Þetta háa verð gróf undan rekstri flugfélaga á heimsvísu, að sögn Birkis, og þurrkaði mörg þeirra út. „Það sem skipti sköpum fyrir okkur var að ráðast hratt í hagræðingaraðgerðir, ekki aðeins til að mæta skammtímasveiflum, heldur ekki síður til þess að laga félagið að breyttu rekstrarumhverfi til frambúðar. Við drógum úr framboði um 25 til 28 prósent til þess að mæta minnkandi eftirspurn. Sætanýtingin í ferðum okkar hélst þannig í viðundandi horfi. Við höfum síðan alltaf lagað okkur hratt að sveiflum, og þær hagræðingaraðgerðir sem ráðist var á ýmsum stjórnunarstigum innan félagsins, miðuðu öðru fremur að því að stytta boðleiðir til þess að geta breytt hlutum hraðar. Bankahrunið síðastliðið haust var vitaskuld eitthvað sem enginn gat séð fyrir en áhrifin af því, og falli krónunnar, hafa verið þau að Íslendingar ferðast mun minna en áður sem bitnar auðvitað á rekstrinum. En það felast líka í þessari stöðu tækifæri sem mikilvægt er að greina vel og nýta. Að því einbeitum við okkur nú,“ segir Birkir.

Birkir Hólm segir enn fremur að þrátt fyrir að lánastofnanir og aðrir kröfuhafar ráði nú yfir félaginu, þá þýði það ekki að rekstur Icelandair sé í molum. Þvert á móti geti félagið eflt leiðakerfi sitt í því árferði sem nú er, og einblínt meira á erlenda markaði. „Til framtíðar gæti þetta tímabil verið Icelandair mjög mikilvægt,“ segir Birkir.

Sjá nánar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins á morgun

Birkir Hólm Guðnason, sést hér ásamt Leif Johan Sevland, borgarstjóra …
Birkir Hólm Guðnason, sést hér ásamt Leif Johan Sevland, borgarstjóra í Stavanger, eftir áætlunarflug Icelandair til Stavanger í gær. Þangað hyggst félagið fljúga tvisvar í viku í sumar.
Icelandair Boeing 757
Icelandair Boeing 757
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka