Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit á tveimur heimilum Hannes Smárasonar, fyrrum forstjóra FL Group, að Fjölnisvegi 9 og 11 í morgun í tengslum við möguleg skattalagabrot félaga í eigu Hannesar, samkvæmt heimildum mbl.is
Auk þess gerði efnahagsbrotadeildin húsleit á lögfræðistofunni LOGOS í morgun, en Gunnar Sturluson, faglegur stjórnandi LOGOS, var framkvæmdastjóri og sat í stjórnum félaga í eigu Hannesar á þeim tíma sem grunuð brot áttu að hafa verið framin. Gunnar sagði sig frá félögunum í lok nóvember síðastliðins.
Heimildir Morgunblaðsins herma að rannsóknin tengist meðal annars mögulegum skattalagabrotum eignarhaldsfélaganna Oddaflugs og Prímus, sem bæði eru í eigu Hannesar.
Þetta var önnur húsleitin sem framkvæmd var hjá LOGOS í dag en fulltrúar embættis sérstaks saksóknara fóru einnig þangað inn í morgun. Sú húsleit var liður í rannsókn embættisins á meintri markaðsmisnotkun og hugsanlegum auðgunarbrotum vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi síðastliðið haust.
Í morgun var einnig gerð leit í vefhýsingunni hjá LOGOS til þess að nálgast ýmis rafræn gögn. Þar voru haldlagðir tölvupóstar og önnur rafræn skjöl, samkvæmt upplýsingum mbl.is.