Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á félögum í eigu Hannesar Smárasonar er tilkomin vegna ábendingar frá embætti skattrannsóknarstjóra, samkvæmt heimildum mbl.is. Grunur leikur á að félögin hafi framið skattalagabrot.
Hannes á á 100 prósent hlut í FI fjárfestingum ehf., sem hét Fjárfestingafélagið Primus þar til 28 nóvember 2008. Gunnar Sturluson, faglegur framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar LOGOS, var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður þess félags fram til 28 nóvember 2008. Samkvæmt ársreikningi Primus árið 2006 greiddi félagið 800 milljónir króna í arð til eina hluthafans, Hannesar Smárasonar. Engin arður var greiddur út fyrir árið 2007.
FI á fjögur dótturfélög, þrjú sem eru í hundrað prósent eigu félagsins og EO eignarhaldsfélag sem er í 86 prósent eigu FI.
EO eignarhaldsfélag hét áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug. Það félag átti 100 prósent í Oddaflugi B.V. frá Hollandi sem var um tíma stærsti eigandi FL Group. Gunnar Sturluson sat sem stjórnarformaður þessa félags líka þar til 28. nóvember síðastliðinn. Þar voru öll hlutabréf Hannesar í FL Group geymd.
Önnur félög í eigu Primusar eru eignarhaldsfélagið Sveipur, 3S ehf., Hlíðarsmári 6 ehf. Fjölnisvegur 9 ehf.
Gunnar Sturluson sat einnig í stjórn Sveips. Það félag átti 5,4 milljarða króna í óráðstöfuðu eigin fé í lok árs 2006 og um sjö milljarða króna í kröfur á tengd félög. Engar skuldir við lánastofnanir voru inni í Sveip í lok árs 2006. Í lok árs 2007 hafði hið óráðstafaða eigið fé minnkað í um 2,8 milljarða króna og kröfur á tengd félög í um 2,4 milljarða króna.